Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur lagt til breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins til að hægt sé að koma upp flugbraut á bænum Guðnastöðum í Landeyjum. Tillaga þessi er í umsagnarferli fram að jólum.
Í tillögunni kemur fram að um er að ræða eina flugbraut, 80 x 1.100 metra á túni í landi Skækils/Guðnastaða við Bakkaveg í Landeyjum.
„Á Guðnastöðum eru hús sem nýst geta sem flugskýli og því er staðsetning flugbrautar í landi Skækils talin hagkvæm og heppileg. Skortur er á flugskýlum á svæðinu, þ.ám. við Bakkaflugvöll. Þar sem ábúandinn á Guðnastöðum er aðili að flugfélaginu Arctic Wings og áform eru um að nota flugbrautina til að geta flogið milli lands og Eyja en Bakkaflugvöllur er í útleigu til annars flugfélags,“ segir í tillögunni, sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.