„Það er alveg ljóst að í þeim kjaraviðræðum sem fram undan eru mun íslenskt verkafólk fremur velja harða kjarabaráttu og jafnvel vinnustöðvanir en að þiggja að hámarki 4% launahækkun í þriggja ára samningi, eins og Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir,“ segir í fréttatilkynningu frá Framsýn, stéttarfélagi Þingeyinga.
Jafnframt er skorað á stjórnvöld að halda aftur af hækkun opinberra gjalda og er í því samhengi vísað til þjónustugjalda fyrir almenna þjónustu og heilbrigðisþjónustu, ásamt skatta á eldsneyti.
„Þá vega gjaldskrárhækkanir eins og hækkanir á fasteignagjöldum almennt þungt í vasa verkafólks sem býr við það hlutskipti að vera á lágmarkslaunum,“ segir í tilkynningunni.
Fram kemur að félagið telur eðlilegt að væntingar almenns launafólks séu miklar, „ekki síst í ljósi ofurhækkana til einstakra hópa s.s. forstjóra, þingmanna og ráðamanna, þeirra sem reglulega vara við launahækkunum til þeirra sem búa við lökustu kjörin.“
Bendir Framsýn á að samkvæmt launatöflu Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins eru föst mánaðarlaun verkafólks á bilinu 266.735 upp í 300.680 krónur.
Þá er spurt hvort þeir „sem vilja láta taka sig alvarlega talað gegn launahækkunum til fólks sem starfar eftir kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands íslenskra verslunarmanna?“