„Þegar maður er kominn í þetta alþjóðlega umhverfi þá rekst maður á menningarmun. Þessi ástarsaga stendur svolítið í Bretunum,“ segir Lilja Sigurðardóttir rithöfundur.
Nýlega kom önnur bók Lilju, Netið, út í Bretlandi. Eins og íslenskir spennusagnaunnendur þekkja vel er hún hluti af þríleik þar sem ástarsaga tveggja kvenna kemur við sögu. Þegar unnið var að útgáfu bókanna í Bretlandi kom það Lilju nokkuð á óvart að ritstjórinn vildi gera minna úr lesbísku ástarsögunni af ótta við viðbrögð lesenda þar í landi.
„Það eru nettar kynlífssenur í bókunum, enginn dónaskapur að mínu mati. Bara eitthvað sem er hluti af lífinu, krydd í tilveruna. Frökkunum finnst þetta æði, alveg geggjað en þetta stendur í Bretunum. Ég hef þurft að vinna með breska forlaginu í að snyrta þetta aðeins,“ segir Lilja í Morgunblaðinu í dag.
Hún segist hafa komist að því að bæði sé yfir höfuð mikil andstæða við kynlífslýsingar í glæpasögum í Bretlandi og eins sé forleggjari hennar alls ekkert fyrir kynlífslýsingar í bókum yfirleitt.