„Ég hélt þetta væri á dagskrá til að fela fjárlögin,“ sagði Helga Vala Helgadóttir þingkona Samfylkingar um þá umræðu sem hefur verið í þinginu um þriðja orkupakkann. Helga Vala lét þessi orð falla í þættinum Silfrinu á RÚV í morgun og sagði flokkana sem hvað mest hafi sig frammi í umræðunni, Miðflokk, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, vera þá sömu og hvað mest hafi staðið gegn nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá landsins.
„Þeir sem vilja gjarnan breyta stjórnarskránni, þar hefur einmitt verið fjallað um að það þurfi að setja auðlindir okkar skýrt í stjórnarskrá í eigu þjóðarinnar. Það er algjört grundvallaratriði sem við verðum að koma í stjórnarskrána,“ sagði Helga Vala. Þeir tali núna „fjálglega um að það þurfi að verjast hinu illa í Evrópu. „Þarna eru holur hljómur sem að ég átta mig ekki á,“ sagði hún. Sæstrengur sé ekki í umræðunni í þriðja orkupakkanum. „Það er önnur ákvörðun sem kemur til seinna og ef. Það er búið að vera að tala um þetta í 20 ár. Það að leggja sæstreng kostar jafn mikið og að reka íslenska ríkið í heilt ár.“
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist þeirrar skoðunar að enn væri nokkrum spurningum ósvarað og því hafi utanríkisráðherra tekið þá ákvörðun að fresta framlagningu málsins.
„Ég verð þó að gera athugasemd við síðbúnar athugasemdir Sigmundar [Davíðs Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins] við þennan samning,“ sagði Páll. „Á því kjörtímabili þegar hann leiddi ríkisstjórnina og flokksbróðir hans þá og nú Gunnar Bragi Sveinsson var utanríkisráðherra, á tveggja ára tímabili 2014 og 2015 voru lögð fram 3 minnisblöð frá utanríkisráðuneyti Gunnars Braga til utanríkismálanefndar Alþingis sem öll áttu það sameiginlegt að komast að þeirri niðurstöðu að þriðji orkupakki Evrópusambandsins væri í fullu samræmi við tveggja stoða kerfið og væri ekki með neinum hætti að höggva að stjórnarskrá eða fullveldi Ísland."
Síðan hafi komið álit að minnsta kosti tveggja þingnefnda, utanríkismálanefndar Alþingis og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og jafnvel líka atvinnuveganefndar sem hafi líka komist að þeirri niðurstöðu um þetta samræmdist tveggja stoða kerfið og vægi ekki að fullveldinu. Á þeim grundvelli hafi ríkisstjórnin samþykkt þetta að orkupakkinn verði tekinn upp í EES löggjöf.
„Nú ber ég fulla virðingu fyrir því að menn skipti um skoðun og geri það oft sjálfur, en menn verða samt að kannast við fyrri skoðun,“ sagið Páll. „Við erum á þeim stað núna að taka ákvörðun vegna þess að settur var stjórnskipulegur fyrirvari og auðvitað hefur Alþingi síðasta orðið.“ Alþingi geti því bæði fellt eða samþykkt málið. „Sigmundur Davíð verður samt að kannast við aðdraganda þess að málið sé á þeim stað nú.“
„Það er alrangt að setja þetta þannig upp að málið hafi með einhverjum hætti verið klárað á sínum tíma,“ sagði Sigmundur Davíð.
„Sjálfstæðismenn hafa oft bent á það með réttu á að aðrir flokkar virðist ekki kannast við veru sína í ríkisstjórn. Nú allt í einu eru þeir búnir að steingleyma þátttöku sinni í ríkisstjórnum undanfarinna ára. Þeir hafa setið óslitið frá 2013 og allan tímann farið með ráðuneytið sem orkupakkinn heyrir undir, iðnaðarráðuneytið,“ sagði hann.
Iðnráðuneytið sé það ráðuneyti sem hafi yfirsýn yfir áhrifin af innleiðingu orkupakkans og það hafi sent Evrópusambandinu athugasemdir 2014 um að Ísland gæti ekki samþykkt málið óbreytt og þyrfti undanþágur, en þær hafi ekki verið veittar. „Þá ætlum við ekki að samþykkja orkupakkann,“ bætti hann við.
„Aðkoma minnar stjórnar var að gera athugasemdir við og taka fram að við gætum ekki innleitt hann óbreyttan,“ bætti hann við og kvaðst ekki kannast við að hafa skipt um skoðun varðandi málið. „Ég hef aldrei verið hlynntur þessu, en skal segja hvað sem er, sem gerir Sjálfstæðismönnum auðveldara að koma með í þessa baráttu.