Munu ekki loka veginum vegna holunnar

Holan í veginum hefur verið merkt með keilum. Holan slagar …
Holan í veginum hefur verið merkt með keilum. Holan slagar í metra í þvermál og er hyldjúp, eins og sést. mbl.is/Þorgeir

„Við lögum þetta á morgun. Þetta er nú ekkert stórvægilegt,“ segir Sigurður Jónsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Akureyri, í samtali við mbl.is um stærðar holu sem myndaðist í gamla Vaðlaheiðarveginum við Akureyri. Jörðin opnaðist á veginum með þeim hætti að keyri þar ofan í bíll, á hann á hættu að stórskemmast. 

Hjörleifur Árna­son, jarðar­eig­andi í Vaðlaheiði, sagði í sam­tali við mbl.is í gær að hol­an væri í það minnsta 1,5 metrar á dýpt og að hún slagi í metra í þver­mál.  

Sigurður segir að ónýtt ræsi undir veginum hafi valdið skemmdinni. Skemmdin er á vegi sem ekki er mikil umferð um á veturna, en þó fara skotveiðimenn þar gjarnan um til þess að komast á Vaðlaheiði. Rjúpnaveiði stendur nú sem hæst og því hafa skotveiðimenn farið þar um yfir helgina. 

Hér má sjá holuna.
Hér má sjá holuna. mbl.is/Þorgeir

„Vegurinn er merktur ófær en við munum ekki loka veginum út af þessu. Menn komast þarna fram hjá og við lögum ræsið á morgun,“ segir Sigurður og bætir við að skipt verði um ræsið og skemmdin löguð. „Vatnið sem rennur í gegnum ræsið hefur myndað þetta holrúm. Það er bara dagsvinna að skipta um ræsið,“ segir Sigurður. 

Holan hefur verið merkt, líkt og sjá má á myndinni hér fyrir ofan, svo að vegfarendur sjái hvar hún er staðsett á veginum og geti því forðast hana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert