„Ég hef ekki séð neitt annað heldur en það að þessar uppsagnir áttu sér stað af ástæðu. Það er búið að fara yfir það mjög ítarlega, þær eru dæmdar réttmætar í þessari faglegu úttekt. Þannig að ég sé ekkert annað en að það sé bara mál sem er búið að ganga frá,“ segir Helga Jónsdóttir starfandi forstjóri Orkuveitunnar við mbl.is spurð hvort mál vegna uppsagna Áslaugar Thelmu Einarsdóttur og Bjarna Más Júlíussonar séu nú lokið.
Helga upplýsir að næstu skref munu fela í sér að vinna tillögur að úrbótum. „Næstu skref eru að þau að rýna þessa úttekt sem við vorum að fá í hendurnar í morgun og stjórnin fól mér að vinna á grunni hennar tillögur um hvernig má bæta úr þar sem brotalamir hafa fundist.“
„Það mun ég gera með því að kalla á samstarf við alla starfsmenn Orkuveitunnar, við munum öll hittast á fimmtudaginn til þess að fara í gegnum það og vinna sameiginlega að úrbótartillögur,“ bætir hún við.
Eins og fram hefur komið í umfjöllun mbl.is í dag mun Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, snúa aftur til starfa þriðjudag í næstu viku. Spurð hvort hann mun vera sá aðili sem mun hafa yfirumsjón með framkvæmd tillagna um úrbætur svarar Helga því játandi.
„Þó svo að það séu einhverjir hlutir sem horft er til varðandi framkvæmd uppsagna, þá er það ekki aðfinnslur að honum [Bjarni Bjarnason] beinlínis, heldur aðfinnslur að því að hugsanlega hafi kerfið okkar ekki alveg verið undir það búið að takast á við mál af þessum toga. Það sem við ætlum að sjá til er að ef aftur kemur svona upp verður kerfið undir það búið,“ segir hún.
Margt af því sem hefur verið haldið fram í umræðum um Orkuveituna hefur ekki sýnt raunverulega stöðu innan fyrirtækisins að mati Helgu sem segir það hafi verið erfitt fyrir starfsfólk fyrirtækisins að búa við lýsingar á starfsstað þeirra sem ekki endilega var réttur.
„Það sem hefur verið ánægjulegast af öllu fyrir mig að koma til starfa, er að ég hef komið inn í fyrirtæki sem mjög augljóslega er einstaklega vel stjórnað. […] Það er ótrúlega mikið sem þessar vinnustaðagreiningar segja okkur um trúnaðartraustið innan fyrirtækisins, vinnuandann þar og hvernig fólk metur vinnustaðinn,“ segir hún.