Framhaldsskólakennarar skora á mennta- og menningarmálaráðherra að bjóða fulltrúum félaga leik-, grunn-, og framhaldsskólakennara beina aðild að starfshópi um inntak kennaramenntunar. Vilja þeir meina að með því að setja kennslu á öllum skólastigum undir sama hatt með einu leyfisbréfi rýrir gildi kennaramenntunar á öllum skólastigum og gerir lítið úr þeirri sérþekkingu sem felst í starfi kennara.
Þetta var meðal þess sem kom fram í ályktun Félags framhaldsskólakennara sem var samþykkt á fundi þeirra í dag og hefur verið send fjölmiðlum.
Þá var lýst yfir þeirri eindregnu afstöðu að núverandi lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla verði virt hvað varðar útgáfu leyfisbréfa til kennslu.
Telja framhaldsskólakennarar að sjónarmið um breytingar á útgáfu leyfisbréfa kennara geta verið mismunandi eftir skólastigum og að þess vegna verði að tryggja aðkomu að stefnumótun.
Þá segir í ályktuninni að „núverandi reglugerð um inntak kennaramenntunar er ígrunduð og var mótuð í kjölfar samráðs við kennarafélögin. Reglugerðin um inntak kennaramenntunar endurspeglar þann mun sem er á starfi og ábyrgð kennara á mismunandi skólastigum þar sem vægi kennslufræði og fagþekkingar er mismunandi á hverju skólastigi.“
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ávarpaði fundinn, að því er kemur fram á vef Kennarasambands Íslands.
Hún sagði umræðu um breytingar á útgáfu leyfisbréfa nýhafnar og bauð Félagi framhaldsskólakennara formlega að skipa fulltrúa í samráðshóp ráðuneytisins. Formaður FF sagði félagið þiggja sæti í samráðshópnum.