Samherji er að undirbúa skaðabótamál á hendur Seðlabanka Íslands vegna rannsóknar á meintum brotum fyrirtækisins á reglum um gjaldeyrismál.
Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Hæstiréttur kvað upp dóm í máli SÍ gegn Samherja 8. nóvember. Þar var staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella úr gildi ákvörðun SÍ frá 1. september 2016 um að Samherji skuli greiða 15 milljónir kr. í stjórnvaldssekt til ríkissjóðs vegna brota á reglum um gjaldeyrismál.
Eiríkur Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja, sagði í fréttunum að málið hafi fengið efnislega athugun hjá sérstökum saksóknara og þar hafi komið fram að Samherji hafi ekkert gert af sér. Þess vegna hafi verið erfitt að sitja undir því að málið hafi fallið á tæknilegum atriðum.
Hann sagði réttast fyrir Samherja að fara í viðurkenningarmál á bótaskyldu Seðlabankans til að kanna grundvöll fyrirtækisins fyrir því að höfða skaðabótamál.