Viðræðuhópur skilar niðurstöðum

Strætisvagn á ferðinni í Reykjavík.
Strætisvagn á ferðinni í Reykjavík. mbl.is/​Hari

Viðræðuhópur um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu hefur skilað niðurstöðum sínum til ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Markmiðið með starfi hópsins var að leggja grunn að samkomulagi um fjármagnaða áætlun um fjárfestingar í stofnvegum og kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, að því er kemur fram í tilkynningu.

Hópurinn skilaði sameiginlegri niðurstöðu um forgangsröðun framkvæmda við uppbyggingu stofnvega, borgarlínu og stofnstígakerfis hjólreiða á næstu fimmtán árum og verður niðurstaðan kynnt umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og lagt til að tekið verði tillit til hennar við mótun samgönguáætlunar sem nú liggur fyrir Alþingi.

Á fundinum sammæltust fulltrúar ríkis og sveitarfélaga um að hefja viðræður um frekari útfærslu þeirra tillagna sem fram koma í skýrslunni m.a. varðandi fjármögnun uppbyggingar innviða samgangna. Lagt verður af stað í þær viðræður með það að markmiði að þeim ljúki næsta vor.

Niðurstöður viðræðuhópsins verða gerðar opinberar í næstu viku að lokinni umfjöllun í ríkisstjórn og samhliða umfjöllun í bæjarráðum og borgarráði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert