Íbúum, starfsmönnum og gestum á Hafnartorgi í Reykjavík bjóðast ýmsar útfærslur á bílastæðaleigu.
ÞG Verk byggir Hafnartorg. Þar verða um 70 íbúðir og sjö þúsund fermetrar af skrifstofuhúsnæði. Áformað er að opna bílakjallarann undir Hafnartorgi um áramótin.
Örn Tryggvi Johnsen, rekstrarstjóri hjá ÞG Verk, segir í boði að leigja svonefnd kvöld- og næturstæði á 12-15 þúsund á mánuði.
„Að sama skapi geta starfsmenn í skrifstofum og verslunum leigt dagpassa. Það er ekki búið að ákveða verðskrána en þeir verða á 18-20 þúsund. Þeim sem vilja kaupa sólarhringspassa mun standa það til boða og verður hann líklega á 25 þúsund krónur. Ef viðkomandi vill hins vegar leigja sérmerkt stæði höfum við um 30 slík stæði. Verðið á þeim verður á bilinu 60 til 70 þúsund.
Það fylgir öll þjónusta með þessum stæðum en það er ekki gert ráð fyrir rafhleðslu eða neinu slíku.“
Örn Tryggvi segir aðspurður að þessi leiga endurspegli byggingarkostnað stæðanna.
„Við gerum ráð fyrir að byggingarkostnaður stæðanna sé 9-10 milljónir á stæði,“ segir Örn Tryggvi og bendir á að við áætlun húsaleigu sé algengt að nota margfaldarann 120-160. Margfeldið vísar til hlutfalls leiguverðs af stofnkostnaði fasteignarinnar.
„Við erum að miða við margfaldara sem er í kringum 150. Inni í því er allur rekstrarkostnaður. Leigjandi greiðir ekki húsfélagsgjald af bílakjallaranum, heldur er það tekið með í reikninginn. Þá er rekstrarkostnaður á stæðunum í leiguverðinu,“ segir Örn Tryggvi. Hann segir að almennt fylgi bílastæði ekki með íbúðunum.
Hann bendir á að hægt sé að leigja bílastæðin til langs tíma.
„Almennt gerum við ráð fyrir að íbúar vilji frekar vera í almennum stæðum, rétt eins og algengt er með fólk sem býr í miðborginni. Það er ljóst að það verður nóg af slíkum stæðum í þessum kjallara, sérstaklega á kvöldin og nóttunni. Auðvitað geta komið álagstoppar en heilt yfir á fjöldi bílastæða að anna eftirspurn,“ segir Örn Tryggvi og bendir aðspurður á að almenningssamgöngur séu óvíða betri en í miðborginni.
„Það fylgir eðlilega þeirri ákvörðun að ætla að búa í miðborginni að hafa aðrar hugmyndir eða gera aðrar kröfur um bílastæði eða samgöngumáta en í úthverfum.“
Ætlunin er að bílakjallarinn undir Hafnartorgi verði tengdur við bílakjallarann undir Austurhöfn og við Hörpu. Örn Tryggvi segir áformað að tenging við Hörpukjallarann verði tilbúin seint í vor. Hins vegar sé ekki víst hvenær bílakjallari undir fyrirhuguðum höfuðstöðvum Landsbankans verður opnaður.
Alls verða um 240 bílastæði undir Hafnartorgi og Geirsgötu og alls 1.127 stæði í kjallaranum í heild.