Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, minnist í forstjórapistli sínum á fregnir sem bárust af konu sem var látin gista á salerni bráðaöldrunardeildar spítalans. Hann segir að fólki hafi að vonum verið brugðið enda eigi enginn að búa við slíka aðstöðu.
„Því miður kemur þó fyrir, við sérstakar aðstæður, að grípa verður til óyndisúrræða af þessu tagi, þótt auðvitað sé sjúklingi komið í betra rými um leið og það er unnt. Þetta er birtingarmynd af því ástandi sem við á Landspítala höfum verið óþreytandi að benda á: skortur á úrræðum fyrir sjúklinga sem þegar hafa lokið meðferð og þurfa úrræði utan spítalans veldur því að deildir yfirfyllast, þegar að nýir sjúklingar þurfa þjónustu deildarinnar en aðrir komast ekki af henni,“ skrifar Páll í vikulegum pistli sínum.
Hann nefnir að spítalinn hafi þurft að loka rúmum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum og núna séu ríflega 40 rúm lokuð af þessum sökum. „Landspítali er sérgreinasjúkrahús og til okkar leitar fólk með vandamál sem krefjast sérhæfðrar þekkingar sem ekki er hægt að fá annars staðar, ekki fólk að leita húsaskjóls. Þess vegna er mikilvægt að sú mikla fjárfesting sem í mannauð og búnað hefur verið lögð nýtist með sem bestum hætti.“
Páll segir afar áríðandi að deildin sem sjúklingur leggst inn á sé mönnuð starfsfólki sem sérhæfir sig í vandamáli viðkomandi. Þannig verði viðunandi meðferð best tryggð og líkurnar á alvarlegum atvikum lágmarkaðar. „Það er vel þekkt að þegar alvarleg atvik verða, þá er innlögn utan þeirrar sérhæfingar sem sjúklingurinn þarfnast einn af lykilþáttum í því sem aflaga fer.“
Forstjórnin minnist einnig á að Örkin, hermisetrið þar sem starfsfólk getur æft sig við öruggar aðstæður, hafi nýverið fengið vottun frá hinu breska ASPiH en í því felst viðurkenning á gæðum þess. Jafnframt nefnir hann að Hjartagátt Landspítala verði flutt á bráðamóttöku spítalans eftir eina viku. Fjöldi starfsmanna hafi lagt allt kapp á að tryggja öryggi og góða þjónustu við hjartasjúklinga eftir flutningana.