Enginn fór í jólaköttinn í dag

Á meðan ekki var enn búið að kveikja á kettinum …
Á meðan ekki var enn búið að kveikja á kettinum héldu kannski sumir að sjálfur jólakötturinn væri mættur með tóman maga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir sem óku hjá Lækjartorgi fyrr í dag hafa að líkum haldið að þar væru mætt börn sem ekki munu fá flíkur fyrir jólin til að mæta örlögum sínum snemma, enda var þar fyrir mættur um fimm metra hár jólaköttur og skari af forvitnum krökkum. Sem betur fer fyrir börnin var einungis um að ræða jólaskreytingu, en ekki sjálfan jólaköttinn, og varð börnunum það ljóst þegar tendrað var á þeim 6.500 LED-ljósum sem prýða köttinn.

Þrátt fyrir að hinn raunverulegi jólaköttur hafi ekki mætt með tóman maga á svæðið mættu eigendurnir og foreldrar sjálfra jólasveinanna, Grýla og Leppalúði, til að heilsa upp á börnin.

6.500 LED-ljós prýða jólaköttinn.
6.500 LED-ljós prýða jólaköttinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjónin sem öll börn hræðast sungu

Hjónin hafa löngum verið þekkt fyrir skapgerð sína. Leppalúði sem landsins mesta letiblóð og Grýla fyrir heift og reiði, þá sérstaklega í samskiptum við sambýlismenn sína. Líklega má um kenna áralangri einangrun frá mannabyggðum því hjónakornin voru að eigin sögn mjög ánægð með þá virðingu sem fjölskyldunni væri veittur, og tóku nokkur lög í tilefni dagsins.

Grýla og Leppalúði léku á alls oddi á Lækjartorgi í …
Grýla og Leppalúði léku á alls oddi á Lækjartorgi í dag. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Á eftir hjónunum fríðu söng barnakórinn Graduale Futuri nokkur jólalög og í kjölfarið hélt Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar, stutta ræðu. Eftir ræðu var svo komið að niðurtalningu að tendrun ljósanna, sem Dóra, Grýla og Leppalúði, sáu um í sameiningu.

Hönnun jólakattarins, sem er um fimm metrar á hæð og sex metrar á breidd, er samstarf Reykjavíkurborgar, mk-illumination í Austurríki og fyrirtækisins Garðlist.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar, hélt stutta ræðu í tilefni …
Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar, hélt stutta ræðu í tilefni dagsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Þrátt fyrir að mánuður sé til jóla voru söngvararnir í …
Þrátt fyrir að mánuður sé til jóla voru söngvararnir í Graduale Futuri með jólalögin á reiðum höndum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert