Tölvuþrjótar gerðu tilraun til að kúga ljósmyndarann Pál Stefánsson til að greiða tæpa milljón í rafmynt fyrir 10 þúsund ljósmyndir sem áttu að birtast í nýrri bók hans, Hjarta Íslands.
Frá þessu er greint á vef Rúv.
Haft er eftir Páli að það hafi aldrei komið til greina að láta undan kröfum tölvuþrjótanna en það sé erfitt að horfa á eftir myndunum. Ráðist hafi verið á tölvuna og skjölin skemmd.
Hann segir í samtali við Rúv að hann ætli ekki að kæra málið til lögreglu. Það sé hins vegar vont að missa góðar myndir en hann muni læra af þessu og geyma verkefni og myndir á sem flestum stöðum eftir þetta.