Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, lagði til á fjölsóttum fundi Íslendinga á Ensku ströndinni á Kanaríeyjum að Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, yrði gerður að verndara landbúnaðarins og matvælaöryggis Íslands.
Fundurinn var á vegum Sturlu S. Þórðarsonar, en hann sér um fundina sem eru haldnir hvern laugardag á þessum slóðum. Hátt í 200 manns sóttu fundinn og var vel tekið í hugmyndina en auk þess hefur Guðni borið tillöguna undir Ólaf Ragnar sem tók henni vel.
„Við höfum orðið þess vör að fyrrverandi forsetar og stjórnmálamenn taka að sér að vera í fararbroddi í umræðu um þýðingarmikil mál, þar má nefna Vigdísi Finnbogadóttur, verndara tungumálanna og sérstaklega íslenskunnar. Ólafur er öflugur talsmaður og hefur lagt mikið til umræðu um ýmis mál, t.d. tengd norðurskautinu. Hann er framúrskarandi í að halda utan um sín baráttumál eins og við sáum í Hörpu.“
Á málþingi um þjóðaröryggi og fullveldi sem fram fór í Hörpu um helgina fjallaði Ólafur Ragnar um stöðu bænda og að matvælin væru einn mikilvægasti þátturinn í öryggi þjóða, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.