Sú ákvörðun Forlagsins og annarra útgefenda að láta prenta bækur erlendis kom í veg fyrir að hægt væri að halda úti prentun innbundinna bóka á Íslandi. Þetta fullyrðir framkvæmdastjóri prentsmiðjunnar Odda, Kristján Geir Gunnarsson, í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér.
„Í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi sagði framkvæmdastjóri Forlagsins að ómögulegt yrði að endurprenta bækur á Íslandi fyrir jólin. Það sagði hann vera vegna þess að Oddi hefði selt bókbandsvél sína úr landi. Oddi vísar þessum ummælum til föðurhúsanna,“ segir í yfirlýsingunni.
Í fréttinni hafi ekki komið fram höfuðástæða þess að prentun bóka var hætt hjá Odda, en hún hafi verið sú að útgefendur, þar á meðal Forlagið sem ráði stærstum hluta bókaútgáfu á Íslandi, hafi valið að prenta frekar bækur erlendis en á Íslandi vegna verðmunar. „Í kjölfar þess hvarf grundvöllur Odda fyrir því að reka allt árið tæki og mannskap sem þarf til prentunar innbundinna bóka. Kostnaðurinn sem til þarf er einfaldlega mun meiri en svo að hægt sé að halda honum úti allt árið til þess eins að íslensk bókaforlög geti átt möguleika á endurprentunum nokkurra titla skömmu fyrir jól.“
Segir í yfirlýsingunni að Oddi hafi á undanförnum árum „ítrekað bent á þessa staðreynd í samskiptum við bókaforlög“. Sú staða sem framkvæmdastjóri Forlagsins nefndi í fréttinni eigi því ekki að koma honum eða öðrum bókaútgefendum á óvart. „Reyndar er það svo að vegna yfirburðastöðu Forlagsins á íslenskum bókamarkaði skipti ákvörðun fyrirtækisins um að láta prenta bækur erlendis hvað mestu máli varðandi rekstrarforsendur bókbandsvélar Odda. Það kemur því verulega á óvart að hann kjósi að benda á Odda sem orsök þess að ekki verði hægt að endurprenta söluháa bókatitla skömmu fyrir jól.“
Þá bendir Oddi á að hlutfall prentunar af útsöluverði bókar á Íslandi sé aðeins um 4-8%. Því sé prentkostnaður ekki eins stór þáttur í bókaútgáfu líkt og umræðan gefi stundum til kynna. Því sé svigrúm íslenskra prentaðila til að mæta lægri verðtilboðum erlendis mun minna en ætla megi. Þá hafi sterkt gengi íslensku krónunnar og launahækkanir umfram það sem þekkist í samkeppnislöndum einnig veikt samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu.
„Í ljósi þess hversu veigalítill þáttur prentunin er í útsöluverði bóka, höfðum við hjá Odda væntingar til að það tækist að halda prentun íslenskra bóka hér á landi. En ákvörðunin liggur að sjálfssögðu hjá bókaútgefendum sem hafa því miður í auknum mæli látið hlutfallslega lítinn verðmun ráða vali á prentunarstað undanfarin ár í stað þess að líta til víðari þátta,“ segir í yfirlýsingunni.
Verðsamkeppni í bókaprentun við erlenda aðila sem sinni margfalt stærri mörkuðum verði íslenskum prentiðnaði alltaf erfið. „Oddi lagði því mikla áherslu á að prentun bóka hjá fyrirtækinu byði íslenskum viðskiptavinum upp á aðra jákvæða þætti, sérstaklega þegar kemur að umhverfisáhrifum sem og hraðri afgreiðslu.“
Útreikningar óháðra aðila sýna einnig að bók sem prentuð er hjá algengum keppinautum erlendis hafði allt að 352 prósentum hærra kolefnisspor en bók prentuð á Íslandi hjá Odda.
„Ákvörðun Forlagsins og annarra bókaútgefenda um að prenta bækur frekar erlendis voru mikil vonbrigði, ekki einungis fyrir Odda heldur einnig íslenska neytendur, þar sem hún hafði þau beinu áhrif að kippa fótum undan prentun innbundinna bóka á Íslandi og þar með endurprentun vinsælla titla fyrir jól.“
Málflutningur framkvæmdastjóra Forlagsins gagnvart Odda í sjónvarpsfréttum í gær sé því „óforsvaranlegur“.