Samtök ferðaþjónustunnar gagnrýna Isavia fyrir að rukka gjöld vegna hópferðabifreiða við Keflavíkurflugvöll sem ég rúmlega 30 sinnum hærri en kostnaðurinn við að veita þjónustuna. Þetta kemur fram í bréfi samtakanna til fyrirtækisins.
Vísa Samtök ferðaþjónustunnar þar til mats Samkeppniseftirlitsins í þeim efnum vegna gjaldtöku Isavia. Þannig sé gjaldið fyrir hópbifreið sem tekur allt að 19 farþega 3.200 krónur fyrir hvert skipti sem farþegar eru sóttir í flugstöðina, 7.400 krónur fyrir bifreið sem tekur 20-45 farþega og 9.900 fyrir bifreið sem tekur 46 farþega.
Benda SAF á að gjaldtöku opinberra aðila sem grundvallist á sjónarmiðum um innheimtu þjónustugjalda sé sett ákveðin skilyrði er snúa að grundvelli og umfangi gjaldtökunnar. Þannig sé stjórnvaldi aðeins heimilt að taka gjald fyrir beinan kostnað eða kostnað sem sé í nánum og efnislegum tenjgslum við viðkomandi þjónustu.
„Því er mikilvægt að til staðar liggi kostnaðargreining á umfangi veittrar þjónustu en hlutverk slíkrar greiningar er því að tryggja að útdeiling á kostnaði á vörur og þjónustu opinbers aðila verði með sanngjörnum og skynsamlegum hætti. Kostnaðargreiningu er þannig ætlað að halda utan um allan kostnað og sýna jafnframt fram á að ákvörðun um gjaldskrá sé byggð á traustum og vönduðum útreikningi á þeim kostnaðarliðum sem liggja til grundvallar.“