Inga Sæland segir ómögulegt að brúa þá gjá sem Karl Gauti Hjaltason myndaði með ummælum sínum þess efnis að Inga réði ekki við að stjórna flokknum. „Hann lýsir algeru vantrausti á mig sem formann, talar niðrandi og illa til mín. Það er engin afsökunarbeiðni sem getur brúað þessa gjá.“
Þetta segir Inga í samtali við mbl.is, en hún fór ekki til þingmannaveislu á Bessastöðum í kvöld. Hún kveðst ekki hafa haft til þess tíma, enda hafi hún enn verið að vinna.
„Við vorum að klára okkar fund. Ég tek skylduna fram yfir annað, og mér þykir það mín skylda að koma þessum málum að hreint,“ segir Inga og á við stjórnarfund Flokks fólksins. Stjórn flokksins, auk hluta framkvæmdastjórnar, kom saman nú síðdegis og sammæltist um kröfu þess efnis að Karl Gauti og Ólafur Ísleifsson, þingmenn Flokks fólksins, segðu af sér vegna framkomu sem náðist á upptöku á Klaustri bar 20. nóvember.
„Stjórnin var algjörlega einróma, að vísu ekki Karl Gauti, hann er stjórnarmaður en var búinn að yfirgefa fundinn til þess að fara á Bessastaði, svo hann var ekki viðstaddur þegar ákvörðunin var tekin,“ útskýrir Inga.
Hún segir framkomu þeirra Ólafs og Karls Gauta ófyrirgefanlega og skaða flokkinn. „Þetta er alger trúnaðarbrestur.“
Hvað aðkomu Ólafs varðar, sem virtist ekki hafa lagt neitt til málanna í umræðunni um vanhæfi Ingu, segir Inga ekkert vitað um það ennþá. Hennar skilningur sé að aðeins lítill hluti þess sem fram fór á Klaustri bar sé kominn upp á yfirborðið.
„Það breytir ekki þeirri staðreynd að þeir telja þarna ástæðu til þess að fara á fund með öðrum stjórnmálaflokki, algerlega án okkar vitneskju. Það sem þarna fer fram dæmir sig sjálft og þessir menn eiga ekkert erindi inn á Alþingi Íslendinga eins og þeir hafa hagað sér,“ segir Inga, og aðspurð ítrekar hún að þar eigi hún líka við þingmenn Miðflokksins.
„Ekkert þeirra. Þau eiga bara að fara. Þetta er næstum 10% af þingheimi sem situr þarna að sumbli, og athugið að þeir voru komnir þarna á svæðið þegar enn var verið að fjalla um fjárlögin. Þingið var enn að störfum.“
„Ég hef borið virðingu fyrir þeim, við höfum verið dugleg og samstíga og unnið að mjög góðum málum, en einhvers staðar verður maður að setja punkt þegar kemur að því að axla ábyrgð og senda skýr skilaboð um hvað er rétt og hvað er rangt. Þetta er siðferðislega eins rangt og það getur orðið og kjósendur eiga miklu betra skilið.“