Segir ummælin vera hatursorðræðu

„Þetta er það sem má almennt kalla hatursorðræðu sem er ólíðandi og kjörnir fulltrúar eiga að taka pokann sinn ef þeir haga sér svona,“ segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtaka Þroskahjálpar, um hegðun þingmanna sem gerðu grín að Freyju Haraldsdóttur.

„Þeir hafa nákvæmlega ekkert traust og það er ekki boðlegt að þeir leyfi sér þetta,“ bætir Bryndís við í samtali við mbl.is.

Fjölmiðlar hafa í dag fjallað ítarlega um ummæli sem þingmenn Miðflokks og Flokk fólksins létu falla á veitingastaðnum Klaustri 20. nóvember síðastliðinn og náðust á upptöku.

Freyja Haraldsdóttir á þingi en hún var varaþingmaður Bjartrar framtíðar …
Freyja Haraldsdóttir á þingi en hún var varaþingmaður Bjartrar framtíðar 2013-2016. mbl.is/Ómar Óskarsson

DV greindi frá því fyrr í dag og birti upptöku af því þegar þingmennirnir gerðu grín að Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi þingmanni, meðal annars með því að herma eftir sel þegar Freyja barst í tal.

Bryndísi blöskrar þessi hegðun þingmannanna og segir hana fyrir neðan allar hellur.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtaka Þroskahjálpar.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtaka Þroskahjálpar. Mynd/mbl.is

„Mér finnst það mjög alvarlegt mál að kjörnir fulltrúar okkar skuli haga sér svona. Freyja Haraldsdóttir hefur aldeilis fengið að heyra það í gegnum tíðina frá virkum í athugasemdum og kannski er það meðal annars vegna þess að þingmenn leyfa sér að tala svona. Hvers getum við þá ætlast af frá almenningi?“ spyr Bryndís sem var auðheyranlega hneyksluð yfir háttsemi þingmannanna.

„Við erum alla daga að berjast við fordóma og vinna að jafnréttismálum fyrir fatlað fólk og fyrir því að fatlaðir njóti jafnréttis. Og svo haga þingmenn sér svona. Það er grátlegt og ég skil ekki að fólk sem gerir svona treysti sér til að sitja áfram á Alþingi. Mér finnst það ekki ásættanlegt,“ segir hún.

„Þeir eiga auðvitað að biðja Freyju afsökunar og fatlað fólk almennt. Fatlað fólk tekur það nærri sér þegar verið er að niðurlægja einn fatlaðan, þá taka aðrir fatlaðir það til sín. Þetta er mjög alvarlegt,“ bætir Bryndís við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert