Hægt að auka sætafjölda um 35%

Fyrstu niður­stöður áreiðan­leika­könn­un­ar vegna kaupa Icelanda­ir Group á öllu hluta­fé í WOW air, sem til­kynnt var í gær að ekk­ert yrði af, voru á þá leið að fjárþörf WOW air væri meiri en gert hafði verið ráð fyr­ir. Þetta kem­ur fram í kynn­ing­ar­gögn­um vegna hlut­hafa­fund­ar Icelanda­ir Group sem fram fer í dag. Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelanda­ir Group, sagði í sam­tali við mbl.is í gær að ein af ástæðunum fyr­ir því að ekk­ert varð af kaup­un­um hafi verið sú að komið hefði í ljós að áhætt­an sem fylgdi þeim hafi verið meiri en talið hafi verið.

Fram kem­ur að megin­á­stæða þess að tek­in var ákvörðun af hálfu Icelanda­ir Group um að kaupa WOW air, áður en fallið var frá henni, hafi verið sam­legðaráhrif. Þá varðandi samþætt­ingu leiðakerfa, flug­vall­arþjón­ustu, um­sjón flug­flota og viðhald, minni yf­ir­bygg­ingu og sam­eig­in­lega sölu- og markaðsstarf­semi. Fjár­hags­leg­ar for­send­ur voru fjárþörf til að gera WOW air sjálf­bært, áætlað fjár­streymi fé­lags­ins og áætlaður ein­skipt­is­kostnaður við að ná fram sam­legð. „Grein­ing­ar og áreiðan­leikak­ann­an­ir leiddu í ljós að viðskipt­in stóðust ekki þær for­send­ur sem gerðar voru við und­ir­rit­un kaup­samn­ings­ins.“

Til stóð að leggja fyr­ir hlut­hafa­fund Icelanda­ir Group að samþykkja kaup­in á WOW air en eini dag­skrárliður fund­ar­ins eft­ir að hætt var við kaup­in er til­laga um heim­ild stjórn­ar fé­lags­ins til hluta­fjár­hækk­un­ar. Enn­frem­ur er fjallað um tæki­færi Icelanda­ir til innri vaxt­ar. Til standi að auka tíðni á flug­um til allt að tíu stærri áfangastaða fé­lags­ins. Sömu­leiðis er stefnt að því að bæta nýt­ingu á nú­ver­andi áfanga­stöðum. Þá sé til skoðunar að stækka leiðakerfi Icelanda­ir á næsta ári. Þar á meðal að bæta við sum­ar­leyf­is­áfanga­stöðum.

Tæki­færi til að fjölga ferðamönn­um um 350 þúsund

Fram kem­ur að stjórn­end­ur Icelanda­ir telji mögu­leika á að auka fram­boð á flug­sæt­um um allt að 35%. Áætlað sé að flug­vél­um fé­lags­ins verði fjölgað um þrjár árið 2019. Mik­il tæki­færi séu fólg­in fyr­ir innri vöxt þess til skemmri tíma með sam­ræmd­um flota Boeing-véla. Gert er ráð fyr­ir að inn­leiðing tveggja nýrra tengi­banka á næsta ári auki mögu­leika á bættri nýt­ingu flug­flot­ans. Þetta jafn­gildi fram­boðsaukn­ingu 4-5 flug­véla. Mögu­legt sé að auka fram­boð með því að leigja vél­ar með stutt­um fyr­ir­vara frá leigu­söl­um.

Tæki­færi sé í stöðunni til þess að semja við flug­menn um viðauka við kjara­samn­ing sem gildi á ákveðnum vél­um á nýj­um mörkuðum. Sér Icelanda­ir fram á að geta aukið fjölda ferðamanna til Íslands um 350 þúsund á ár­inu 2019 sé gert ráð fyr­ir óbreyttri sam­setn­ingu farþega. Hægt verði að ná fram um­tals­verðum innri vexti í nú­ver­andi starf­semi án veru­legr­ar fjár­fest­ing­ar. Breyt­ing­ar á leiðakerfi, leng­ing líf­tíma nú­ver­andi flota ásamt kaup­um á nýj­um vél­um skapi grund­völl fyr­ir innri vöxt. Þá sé að auki fyr­ir hendi tæki­færi til að breyta sam­setn­ingu þeirra farþega sem fé­lagið flyt­ur.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert