Launalaus leyfi og þingflokkaflakk

Gunnar Bragi er á leið í launalaust leyfi frá Alþingi.
Gunnar Bragi er á leið í launalaust leyfi frá Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg

Leyfi sem þingmenn Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, hyggjast taka sér frá störfum á Alþingi verða að öllum líkindum launalaus, enda eru þau ekki tekin vegna opinberra erindagjarða á vegum þingsins. Þetta staðfestir skrifstofustjóri Alþingis í samtali við mbl.is.

Tiltölulega algengt er að þingmenn óski eftir launalausu leyfi, af ýmsum persónulegum ástæðum, samkvæmt Helga Bernódussyni. Varamenn sem koma inn fyrir þá Bergþór og Gunnar Braga fá hefðbundið þingfararkaup.  

Geta ekki stofnað eigin þingflokk

Þrjá eða fleiri þarf til þess að stofna nýjan þingflokk innan Alþingis og því er ljóst að Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason geta ekki stofnað eigin þingflokk. Guðmundur Ingi Kristinsson og Inga Sæland geta þó verið tvö í þingflokki Flokks fólksins, enda var hann stofnaður af fleiri en þremur þingmönnum.

Hafa fullt leyfi til að ganga til liðs við annan þingflokk

Samkvæmt Helga eru þingflokkar þó sjálfstæð eining og þarf brottrekstur úr stjórnmálaflokki ekki að þýða að menn fari úr þingflokki. Dæmi séu um að þingmenn úr ólíkum flokkum stofni þingflokka.

Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson.
Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson. Samsett mynd

Þá hafi þingmenn fullan rétt á því að ganga til liðs við aðra þingflokka. Kjósi Karl Gauti og Ólafur hins vegar að segja af sér þingmennsku taka næstu menn af listanum sem þeir voru kosnir inn á Alþingi, af lista Flokks fólksins, sæti þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert