Minning tveggja forystumanna heiðruð

Fulltrúar stúdenta lögðu blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar í morgun …
Fulltrúar stúdenta lögðu blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar í morgun líkt og hefð er fyrir á 1. desember. mbl.is/Kristinn Magnússon

Upptaktur fullveldishátíðar fór fram í dagrenningu í Hólavallagarði við Suðurgötu þar sem heiðruð er minning tveggja forystumanna á leið þjóðarinnar til sjálfstæðis.

Fulltrúar í stúdentaráði Háskóla Íslands lögðu blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar í fylgd forsætisráðherra, forseta Alþingis, háskólarektors og afmælisnefndar fullveldisafmælisins.

Eins var endurnýjaður legsteinn á leiði Jóns Magnússonar og eiginkonu hans, Þóru Jónsdóttur, en Jón var forsætisráðherra 1918 þegar Ísland varð fullvalda ríki. 

Nýr legsteinn á leiði Jóns Magnússonar og eiginkonu hans, Þóru …
Nýr legsteinn á leiði Jóns Magnússonar og eiginkonu hans, Þóru Jónsdóttur, en Jón var forsætisráðherra 1918 þegar Ísland varð fullvalda ríki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leiði og legsteinn Jóns Magnússonar forsætisráðherra í Hólavallagarði við Suðurgötu var lagfært fyrir 100 ára fullveldisafmælið en ríkisstjórnin og skrifstofa Alþingis kosta framkvæmdina í sameiningu og lögðu fram hálfa milljón króna hvor í þessu skyni.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók málið upp á ríkisstjórnarfundi í framhaldi af frétt Morgunblaðsins í byrjun nóvember um að ásigkomulag legsteinsins og leiðisins væri ekki gott. Áletruð plata á legsteininum með nafni Jóns var fjarlægð fyrir nokkru vegna þess að hún var farin að brotna og legsteinninn sjálfur var laskaður.

Fullveldishátíðin verður síðan sett af Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, fyrir framan stjórnarráðsbygginguna klukkan 13 í dag.

Haldin verða stutt ávörp í bland við tónlistarflutning. Ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna tekur virkan þátt í athöfninni og tveir fulltrúar ráðsins ávarpa viðstadda, þau Kristbjörg Mekkín Helgadóttir og Mathias Bragi Ölvisson. Þá mun Jelena Ćirić tónlistarkona flytja ávarp. Söngfólk ásamt blásarasveit annast tónlistarflutning við athöfnina. Tónlistarstjóri er Samúel Jón Samúelsson. Kórarnir sem koma fram eru Hinsegin kórinn, Skólakór Kársness, Kvennakórinn Katla, Múltíkúltíkórinn, Söngfélagið, Karlakór Kjalnesinga, Ekkó kórinn og Léttsveitin, ásamt tveimur söngvurum sem syngja á íslensku táknmáli. Rauði krossinn mun bjóða upp á heitt kakó á Lækjartorgi í tilefni dagsins.

 Vakin er athygli á því að skipulagt hátíðasvæði er Lækjartorg, Lækjargata, Bankastræti, Hverfisgata og Arnarhóll og að umferð ökutækja er takmörkuð um svæðið meðan á athöfn stendur. 

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert