Leikhópur Borgarleikhússins mun á mánudagskvöldið leiklesa hluta úr samtali þingmanna á veitingastaðnum Klaustri og í dag klukkan 14 hefur verið boðað til mótmæla á Austurvelli undir yfirskriftinni Fullveldi fjöldans - ekki aðeins hinna fáu.
„Eitt af meginhlutverkum leikhússins er að varpa ljósi á málefni líðandi stundar. Með þessum viðburði leitast leikhúsið við að skoða ábyrgð og orðræðu kjörinna fulltrúa í lýðræðislegu samhengi.
Bergur Þór Ingólfsson leikstýrir leiklestrinum og leikarar eru Brynhildur Guðjónsdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Hilmar Guðjónsson.
Viðburðurinn, sem verður á Litla sviði leikhússins, er öllum opinn og aðgangur ókeypis. Ef salurinn fyllist verður leiklestrinum einnig streymt í forsal leikhússins. Auk þess verður hægt að fylgjast með því streymi á netinu og verða upplýsingar um það birtar síðar. Húsið mun opna kl. 20:00 og er fólk hvatt til að mæta tímanlega,“ segir á Facebook-síðu Borgarleikhússins.
Mikill fjöldi hefur boðað komu sína á mótmæli á Austurvelli í dag en í dag fagna Íslendingar 100 ára fullveldi.
„Boðað er til fundar almennings á Austurvelli 1. desember klukkan 14:00 í tilefni af þeim yfirgengilegu fordómum og mannfyrirlitningu sem hópur þingmanna hafði frammi á fundi sínum á Klausturbarnum í Templarasundi. Almenningur á Íslandi lætur ekki bjóða sér svona talsmáta og viðhorf meðal þingmanna eða annarra starfsmanna sinna. Við erum öll jöfn og eigum að njóta sömu réttinda og virðingar.
Íslendingar fengu ekki fullveldi til að byggja upp samfélag ójafnaðar, þar sem aðeins örfáir karlar, sem tilheyra peninga- og valdastéttinni, drottna yfir öðru fólki, hrakyrða það og hæða. Almenningur kemur saman á Austurvelli 1. desember til að minna á að það er fólkið í landinu sem hefur hið endanlega vald. Ef yfirvöld og þingmenn ganga fram af almenningi verða þeir að víkja.
Allur almenningur er hvattur til að mæta á Austurvöll á fullveldisdaginn, laugardaginn 1. desember 2018 klukkan 14:00, og minna ráðamenn á að ef þeir virða ekki landsmenn hafa landsmenn ekkert gagn af þeim lengur. Almenningur krefst þess að þingið grafi ekki undan samfélaginu með fordómum og illmælgi.
Fundurinn er friðsöm mótmæli og barnvæn. Munum að hlusta á hvert annað og sína hvert öðru virðingu. Að fundi loknum verða Alþingi afhentar yfirlýsingar og kröfur ræðumanna og þeirra hagsmuna samtaka og aðila sem koma að mótmælafundinum,“ segir í tilkynningu.