Forseta Íslands ofbauð ummælin

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir að honum hafi ofboðið …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir að honum hafi ofboðið orðfæri stjórnmálamannanna. mbl.is/Eggert

„Manni ofbauð. Það er ekkert flóknara en það,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í Silfrinu á RÚV um ummæli alþingismannanna á Klaustur bar nýverið. 

Hann vildi ekki taka afstöðu til þess hvort þeir ættu að segja af sér eður ei. „Ég held að það yrði ekki til framdráttar góðum málstað ef ég færi að setja mig á afskaplega háan stall og segja öðrum til syndanna. En um leið leyfir maður sér að vona að fólk finni hjá sjálfu sér hvað það hefur gert og hvernig beri að bregðast við,“ sagði hann.

Hann sagði þetta ekki til þess fallið að auka traust almennings á stjórnmálafólki. „Auðvitað ofbauð mér, eins og öllum sem á þetta hlustuðu, orðfærið, virðingarleysið, sjálfsupphafningin,“ sagði Guðni.

Hann sagði orðfærið til merkis um „einhvern undirliggjandi vanda.“ Spurður um hvernig mætti leysa þennan vanda sem blasti við í stjórnmálum, um lélegt traust almennings, sagði hann að það væri „eitt af okkar eilífðarverkefnum daginn út og daginn inn.“

„Ekki búum við í þannig samfélagi að sá eða sú sem þessu embætti gegnir segi þingmönnum fyrir verkum, ráði þá eða reki. Allt það er nú í valdi kjósenda. Og svo er samviskan það vald sem frjálsir menn hlýða,“ sagði Guðni.

Frétt RÚV



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert