Heimabakað fyrir 1.000 manns

Hringskonur stóðu vaktina á jólakaffi félagsins í dag. Allt, til …
Hringskonur stóðu vaktina á jólakaffi félagsins í dag. Allt, til styrktar verðugu málefni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Árlegt jólakaffi Hringsins var haldið hátíðlegt í Hörpu upp úr hádegi í dag. Í fyrra söfnuðust um 6 milljónir króna og gera Hringskonur sér vonir um svipaða niðurstöðu í ár. Boðið er upp á veglegt kaffihlaðborð með ýmsum kræsingum, öllu heimabökuðu af konunum.

„Við erum ægilega ánægðar með daginn. Þetta bara tókst alveg svakalega vel,“ segir Vilborg Ævarsdóttir varaformaður Hringsins. „Það var alveg fullt hús og lagt á borð fyrir 900 gesti.“

Vilborg kemur á framfæri innilegum þökkum til þeirra sem létu sjá sig. „Við Hringskonur eru fólkinu svo þakklátar. Við gætum þetta ekki án þessara góðu gesta,“ segir hún.

Fólk flykktist að, spennt að komast í sætindin. Hátt í …
Fólk flykktist að, spennt að komast í sætindin. Hátt í 1000 manns mættu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gestir keyptu sig inn á kaffið og fengu að gæða sér á kræsingum eins og þeir gátu í sig látið. Veisluborð svignuðu undan veitingunum. Þau nýmæli urðu að afgangur var af kökunum. Hringskonur dóu ekki ráðalausar því þær tóku heilu terturnar og seldu þær við útganginn.

Happdrættismiðarnir seldust upp á þremur korterum og vinningarnir ekki af verri endanum, allt frá flugmiðum og hótelgistingum að fínni matarkörfum og jafnvel leikföngum. Vinningshafar fengu nokkuð fyrir sinn snúð.

Þú kemur 1.000 manna kaffiboði ekki fyrir hvar sem er

Þetta er fjórða skipti sem Hringurinn hefur haldið jólakaffið í Hörpu. Áður var það haldið á Hóteli Íslandi. Vilborg segir mikla ánægju með húsakynnin. „Þú kemur 1.000 manna kaffiboði ekki fyrir hvar sem er.“

Vinningarnir í happdrættinu voru hátt í 2500 og kenndi þar …
Vinningarnir í happdrættinu voru hátt í 2500 og kenndi þar ýmissa grasa. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þetta er einn af stærri viðburðum sem Hringurinn stendur fyrir ár hvert og safnast jafnan allmikið fé. Hringurinn er kvenfélag sem vinnur að líknar- og mannúðarmálum, þá einkum í þágu barna. Aðalverkefni félagsins um áratugaskeið hefur verið uppbygging Barnaspítala Hringsins.

Litlu munaði að langborðin svignuðu í bókstaflegum skilningi undan kræsingunum.
Litlu munaði að langborðin svignuðu í bókstaflegum skilningi undan kræsingunum. mbl.is/Kristinn Magnússon
Að endingu voru tertur seldar í heilu lagi við útganginn, …
Að endingu voru tertur seldar í heilu lagi við útganginn, því Hringskonur voru óvenju vel birgar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert