Leikhópur Borgarleikhússins leikles í kvöld hluta úr samtali þingmanna á veitingastaðnum Klaustri. Samtalið var tekið upp og hafa brot úr því birst í fjölmiðlum síðustu daga. Leiklesturinn hefst klukkan 20:30 og fylgjast má með viðburðinum í beinni útsendingu á mbl.is:
Bergur Þór Ingólfsson leikstýrir og leikarar eru Edda Björg Eyjólfsdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Hilmar Guðjónsson.
Leikhópurinn mun fara í gegnum samtalið í réttri tímaröð og flytja þá kafla sem hafa birst opinberlega og telur handritið um 40 blaðsíður.
Pallborðsumræður verða haldnar að leiklestrinum loknum. Haukur Ingi Jónasson, lektor við Háskólann í Reykjavík, stýrir umræðunum og þátttakendur verða Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, blaðamaður á Stundinni, Guðmundur Steingrímsson, heimspekingur, rithöfundur og fyrrverandi alþingismaður, Berglind Rós Magnúsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, Bjarni Jónsson, sem starfaði sem framkvæmdastjóri Siðmenntar um árabil, og Björg Magnúsdóttir fjölmiðlakona.