„Ótrúleg lending“

Lending vélar Icelandair er sögð ótrúleg á síðu Big Jet …
Lending vélar Icelandair er sögð ótrúleg á síðu Big Jet TV. Skjáskot

„Ef það er eitthvað sem við erum virkilega góð í er það nákvæmlega þetta. Við erum oft að kljást við mikinn vind og hliðarvind í Keflavík,“ segir Linda Gunnarsdóttir, yfirflugstjóri hjá Icelandair, um myndband af athyglisverðri lendingu vélar Icelandair á Heathrow-flugvelli í London.

Myndband af lendingunni var birt á Facebook-síðunni Big Jet TV og nefnist hún „Icelandair 767 amazing landing“. Ekki er vitað hvenær lendingin átti sér stað, en nú þegar hafa þúsundir horft á lendinguna sem gengur sem eldur um sinu á netinu og vekur töluverða athygli.

„Það sem er greinilega í gangi þarna er að það er bæði ókyrrt loft og hliðarvindur. Maður heyrir það í talinu að það eru tvær vélar sem hafa hætt við lendingu,“ segir hún. Spurð hvort það sé algengt að íslenskar vélar lendi þegar aðrar hafa hætt við segir hún svo ekki vera.

„Vindurinn er hviðóttur þannig að þetta er spurning hvernig þú setur í hviðuna og þá geturðu lent í því að það getur verið betra að hætta við, taka aukahring og koma aftur,“ segir Linda. „Vélin skoppar aðeins í lendingunni, en þetta er ekkert hrikalegt að mínu mati. Þetta eru aðstæður sem koma alltaf upp, erfiðar aðstæður sem mér sýnist að vel hafi verið tekið á,“ bætir hún við.

Yfirflugstjórinn segir flugmenn vel æfða í þessum aðstæðum. „Þetta er eitthvað sem við æfum reglulega í flughermi, bæði hliðarvind og erfið veðurfarsleg fyrirbrigði. Við erum þjálfuð til þess að takast á við svona aðstæður og beinum vélinni í rétta átt, að halla vélinni upp í vindinn en halda samt stefnunni á brautina.“

Linda Gunnarsdóttir.
Linda Gunnarsdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert