„Ég er afskaplega glöð með samstöðuna eftir þennan fund,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og áheyrnafulltrúi í forsætisnefnd Alþingis, um fund forsætisnefndar um umdeild ummæli þingmanna á barnum Klaustri sem lauk fyrir skömmu.
Inga sagðist hafa tekið til máls á fundinum, en vill ekki upplýsa um hvað var samþykkt á honum eða hvort málinu verður skotið til siðanefndar. Hún segir það koma í ljós við upphaf þingfundar klukkan 15.
Formaðurinn segir alla nefndarmenn samstíga í málinu. „Við hörmum öll þessa uppákomu,“ segir hún. Hún segist ekki getað sagt til um hvort fleiri þingmenn munu hverfa af braut og að það verða undir þeim sjálfum komið.
Meðal þingmanna sem blaðamaður hefur rætt við virðast allir vera nokkuð sammála um að þeim finnist uppákoman á barnum Klaustri afar slæm og líta málið alvarlegum augum.
Þó eru nokkur merki um að einhverjir þingmenn minnihlutans sem blaðamaður ræddi við hafi áhyggjur af því að málið muni skyggja á þingstörfin og mikilvæg mál sem verða til umræðu fram að þinglokum. Sagði einn málið vera „gjöf til meirihlutans.“
Einnig er ljóst að málið verði líklega rætt ítarlega við upphaf þingstarfa.