Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, velti því fyrir sér í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag hvort þingmennirnir sem komu við sögu í Klaustursmálinu svonefnda gætu sinnt störfum sínum á Alþingi. Sagðist hún frekar telja ástæðu til þess að spyrja þeirrar spurningar en hvort þingmennirnir ættu að segja af sér þingmennsku.
Þingmennirnir sem um ræðir eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir, frá Miðflokknum, og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson sem nú standa utan flokka en voru þá í Flokki fólksins.
„Þeim ber að sækja þingfundi og nefndarfundi. Þeim ber að rækja eftirlitshlutverk sitt gagnvart ráðherrum landsins. Þeim ber að vanda til verka við lagasetningu og setja sig inn í mál, hlusta á þá gesti sem mæta fyrir nefndir og eiga í samstarfi við aðra þingmenn og ráðherra,“ sagði hún og bætti við að aðeins hefði verið fjallað um ummæli þingmannanna um opinberar persónur en ekki til dæmis starfsmenn þingsins sem þyrftu að þola návist þeirra.
„Tölvan bilar, þingmál þarf að útbúa, upplýsingar þarf að veita — margt af þessu fólki hefur síðustu daga spurt sig og okkur: Hvernig tala þau um mig? Við skulum einnig vera meðvituð um það að sumt af því sem sagt var hefur ekki verið birt vegna þess hversu ósæmilegt það þótti. Ekkert þeirra getur beint fyrirspurn að hæstvirtum menntamálaráðherra, enda tel ég hana ekki þurfa að svara níðingum sem að henni vógu með svívirðilegum hætti. “
Vísaði hún þar til Lilju Alfreðsdóttur. „Þingkonan sem mátti þola hvort tveggja rangar sakargiftir og vanvirðandi ummæli um sig á ekki að þurfa að þola nokkur einustu samskipti við þetta fólk. Þá eru ótaldir þeir gestir sem stöðu sinnar vegna mæta fyrir þingnefndir. Þeir eiga heldur ekki að þurfa að þola návist þeirra.“