Hópur frá fjárfestingafélaginu Indigo Partners, sem hyggst festa kaup á hlut í WOW air, kom til landsins nú í morgun og mun funda í dag með forsvarsmönnum WOW air samkvæmt heimildum mbl.is.
Meðal þeirra sem taka þátt í viðræðunum í dag er William (Bill) Augustus Franke, einn stofnenda Indigo Partners og sjálfkrýndur konungur lággjaldaflugferða.
Greint var frá því á fimmtudaginn í síðustu viku að samkomulag hefði náðst milli Skúla Mogensen, eiganda WOW air, og Indigo Partners um að félagið fjárfesti í WOW air og barst sú tilkynning innan við sólarhring eftir að slitnað hafði upp úr viðræðum um kaup Icelandair Group á WOW air. Eru kaup Indigo Partners bundin fyrirvara um áreiðanleikakönnun, líkt og fyrirhuguð kaup Icelandair Group hefðu verið.
Hversu stóran hlut félagið hefur hug á að kaupa hefur hins vegar ekki verið gert opinbert, en Morgunblaðið greindi frá því morgun að Indigo Partners geti aldrei orðið meirihlutaeigandi að WOW air, að minnsta kosti ekki á meðan það er rekið á íslensku flugrekstrarleyfi. Því ráði ákvæði í reglugerð Evrópuþingsins og Evrópuráðsins „um sameiginlegar reglur um flugþjónustu í Bandalaginu“, eins og hún er nefnd.