Skrifstofa Alþingis hefur óskað eftir því að fá afhentar hljóðupptökur af samtali þingmannanna sex sem fór fram á barnum Klaustri í nóvember til að siðanefnd geti metið hvort þingmenn hafi brotið siðareglur.
Málinu var í gær vísað til siðanefndar og aðstoðar skrifstofa Alþingis nefndina við öflun upplýsinga. Greint er frá því á vef RÚV að nú þegar hefur skrifstofan óskað eftir gögnum.
„Þetta eru ýmis gögn. Fyrst og fremst umfjöllun fjölmiðla um málið og það sem hefur verið skrifað í greinum og svo framvegis,“ segir Þórhallur Vilhjálmsson, forstöðumaður lagaskrifstofu Alþingis, í samtali við RÚV. Þá segir hann að einnig þurfi að afla skýringa og athugasemda frá þeim sem hlut eiga að máli.
Siðanefndin kom saman á undirbúningsfundi í morgun og er þetta í fyrsta skipti sem nefndin er virkjuð. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, formaður nefndarinnar, segist í samtali við Morgunblaðið í dag ekki geta svarað því hversu langan tíma vinna nefndarinnar muni taka.
„Við höfum einu sinni komið saman til umsagnar um þingmál. Það tók stutta stund að skila því áliti,“ segir hún, en auk hennar skipa þau Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Salvör Nordal, doktor í heimspeki og umboðsmaður barna, siðanefnd Alþingis.