Ótrúlegur munur á desemberuppbót

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ. Ljósmynd/Aðsend

Full desemberuppbót örorkulífeyrisþega nemur rúmum 43 þúsund krónum. Þingmenn og aðrir embættismenn, sem voru undir kjararáði, fá ríflega 181 þúsund króna desemberuppbót. Munurinn er meira en fjórfaldur.

Frá þessu er greint á vefsíðu Öryrkjabandalagsins.

Þar segir að töluverð umræða hafi skapast vegna ríflegrar desemberuppbótar þingmanna og embættismanna ríkisins sem áður heyrðu undir kjararáð. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði til að mynda um helgina að uppbótin væri of há.

Bent er á það á vef ÖBÍ að meðalheildarlaun þeirra embættismanna sem heyrðu undir kjararáð eru um 1,2 milljónir króna á mánuði, sem gera 14,4 milljónir í árslaun.

Til samanburðar má benda á að öryrkja eru skammtaðar innan við 239 þúsund krónur á mánuði, fyrir skatt. Það eru vel innan við 2,9 milljónir ári,“ kemur fram á vef ÖBÍ. „Svo mætti velta því fyrir sér hvað þetta gerir á einni meðalævi, en þá fer að muna hundruðum milljóna á Jóni og Gunnu annars vegar og séra Jóni og Gunnu hins vegar. Og það munar líka ótrúlega miklu á Jóla- og séra Jólauppbót.

Bent er á að sumir lífeyrisþegar fá enga desemberuppbót. Aðrir fái minna en hámarksdesemberuppbót, sem nemi 43 þúsund krónum, en sumir geti klórað sig upp í eitthvað aðeins meira.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert