Vélin hoppaði og vaggaði

„Ég fékk smá í magann þegar bara annað hjólið snerti …
„Ég fékk smá í magann þegar bara annað hjólið snerti brautina, en svo vippaðist vélin aftur upp og hann lenti henni svakalega vel,“ segir farþegi sem var um borð í vél Icelandair sem lenti á Heathrow síðastliðinn fimmtudag í miklum hliðarvindi. Skjáskot

„Hún hoppaði svolítið og vaggaði vélin, en það voru allir pollrólegir, það var ekkert panikk-ástand,“ segir María Hrönn Magnúsdóttir, sem var um borð í vél Icelandair síðastliðinn fimmtudag sem lenti í miklum hliðarvindi á Heathrow-flugvelli. Myndband af lendingunni hefur vakið gríðarlega athygli og hafa hátt í 80.000 manns horft á myndbandið sem var birt á Face­book-síðunni Big Jet TV.

María sat við neyðarútgang við væng og hjól vélarinnar sem skoppaði eftir brautinni við lendinguna. Hún segir að flugið hafi gengið vel heilt yfir en að flugstjórinn hefði varað farþegana við mögulegri ókyrrð við lendingu. María segir að hún hafi aldrei óttast um öryggi sitt. „En ég fékk smá í magann þegar bara annað hjólið snerti brautina, en svo vippaðist vélin aftur upp og hann lenti henni svakalega vel.“

María hrósar flugstjóranum og áhöfn vélarinnar og segir að þau hafi sýnt mikla yfirvegun. „Hann var svo rólegur, maður bara hafði svo mikið traust til hans.“

Lendingin leit verr út á myndbandinu

Í myndbandinu má heyra þul lýsa lendingunni með miklum tilþrifum. María segir að það hafi verið frekar sérstakt að horfa á myndbandið. „Það er svolítið öðruvísi að vera búin að upplifa þetta og horfa svo á þetta utan frá,“ segir hún og bætir við að lendingin líti í raun verr út utan frá en hún upplifði hana inni í vélinni. „Þú áttar þig ekki alveg á því hversu mikið hún vaggar þegar þú situr inni í vélinni.“

María segist hins vegar sannfærð um að hliðarvindurinn hafi ekki verið mikið meiri en flestir hafi upplifað í flugi hér á landi, það sérstaka við lendinguna í síðustu viku hafi verið að hún átti sér stað á Heathrow og því hafi það vakið svona mikla athygli. „Eru ekki allir búnir að ferðast innanlands og lent í öðru eins?“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert