Forsætisráðuneytið kannast ekki við að kjör öryrkja hafi verið bætt um níu milljarða króna, þvert á fullyrðingar Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þetta kemur fram á vefsíðu Öryrkjabandalagsins.
Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn ÖBÍ kemur fram að kjarabætur nemi um 400 milljónum króna í ár og að 2,9 milljarða framlagi til kerfisbreytinga verði varið til að bæta kjör öryrkja.
„Hvernig sem á málið er litið er þó ljóst að fullyrðing forsætisráðherra um níu milljarða króna framlög til að bæta kjör öryrkja stenst enga skoðun,“ kemur fram á vefsíðu ÖBÍ.
Katrín sagði í ræðu á þinginu 26. nóvember að ríkisstjórninni væri alvara með því að í fjárlögum eigi sérstaklega að koma til móts við tekjulægri hópa. „Þessari ríkisstjórn er alvara með að byggja hér upp samfélagslega innviði, og þar skipta kjör örorkulífeyrisþega svo sannarlega máli. Þess vegna sjáum við þessa miklu aukningu, 9 milljarða í tvennum fjárlögum miðað við 2. umr. fjárlaga.“
Öryrkjabandalag Íslands kannaðist ekki við alla þessa milljarða sem forsætisráðherra sagði að hefðu farið í kjarabætur til örorkulífeyrisþega, og það gerðu öryrkjar úti í samfélaginu ekki heldur.
Það ákvað því að senda fyrirspurn til þriggja ráðuneyta, forsætis-, fjármála- og efnahagsráðuneytis, og félags- og jafnréttismálaráðuneytisins. „Það var svo í upphafi vikunnar sem forsætisráðuneytið svaraði, fyrir hönd allra ráðuneytanna þriggja. Svarið er skýrt: Það hafa engir níu milljarðar verið settir í kjarabætur til örorkulífeyrisþega af núverandi ríkisstjórn,“ kemur fram á vef ÖBÍ.
Fram kemur í svari skrifstofustjóra forsætisráðuneytisins að níu milljörðum hafi verið varið til málaflokks örorkulífeyrisþega. ÖBÍ hefur áður komist að því að þeir fjármunir eru meira eða minna bundin útgjöld sem skili sér ekki til örorkulífeyrisþega í formi kjarabóta.
„Í öllu falli er ljóst að þessi fullyrðing forsætisráðherra um níu milljarða „aukning[u] til viðkvæmasta hóps samfélagsins“ stenst ekki skoðun. Við vissum þetta reyndar og höfum nú staðfestingu frá þremur ráðuneytum ríkisstjórnarinnar, setta fram í nafni forsætisráðuneytisins,“ kemur fram á vef Öryrkjabandalagsins.