„Mér fannst þetta skelfilegt,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra í Kastljósi vegna ummæla sem höfð voru um hana á Klaustri bar 20. nóvember. Hún segist hafa upplifað samtal þriggja þingmanna Miðflokksins sem árás.
„Ég upplifi þetta sem ofbeldi. Þeir eru ofbeldismenn,“ sagði Lilja en þingmennirnir sem um ræðir eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson.
Hún segist ekki hafa hlustað á upptökurnar og treystir sér ekki til þess. Fyrstu viðbrögð þegar hún frétti af þeim voru á þá leið að hún ætlaði ekki að láta þetta á sig fá en í lok síðustu viku sendi hún frá sér yfirlýsingu á Facebook.
„Á mánudag þegar frekari upptökur koma fram og það allra grófasta kom fram þá bognaði ég. Ég trúði ekki að menn gætu talað með þessum hætti. Ég vek athygli á því að þetta er algjört ofbeldi,“ sagði Lilja.
Hún segist hafa upplifað mikinn stuðning frá samráðherrum í ríkisstjórn og þinginu öllu. „Við ræddum þetta á ríkisstjórnarfundi á þriðjudag og ég fékk mikinn stuðning. Ég vil líka að það sé alveg skýrt, þetta er óboðlegt, óafsakanlegt og við viljum ekki að íslensku samfélagi sé stýrt af svona fólki.“
Aðspurð sagði Lilja að enginn mannanna hefði hringt í hana. „Bergþór hefur ekki einu sinni reynt að hafa samband við mig. Ég hef auðvitað sagt að þetta sé ósafsakanlegt. Ég hef fengið skilaboð frá Sigmundi og Gunnari Braga. Ekkert af þessu fólki hefur sett sig símleiðis í samband við mig.“
Hún telur að Sigmundur Davíð hafi reynt að biðjast afsökunar og segir þetta mál erfiðara vegna þess að þau voru vinir og unnu saman að mörgum stórum málum. „Sterkur einstaklingur fer ekki í svona vegferð gegn samborgurum sínum. Hann biður um fyrirgefningu en reynir ekki að dreifa málinu og dreifa ábyrgð. Það á bara að biðjast fyrirgefningar og meina það,“ sagði Lilja.
„Ef hann er að kvitta svona fyrir þetta samstarf þá eru það auðvitað vonbrigði. Ég viðurkenni líka að ég bognaði en ég ætla ekki að láta þetta brjóta mig. Ég ætla að halda áfram að sinna mínum störfum og skyldum og þetta fær mig enn frekar til þess að vera mjög ákveðin í því sem ég er að gera.“
Sigmundur Davíð og Anna Kolbrún Árnadóttir ætla að sitja áfram á þingi en Gunnar Bragi og Bergþór hafa tekið sér ótímabundið leyfi frá þingstörfum. Lilju þykir viðbrögð þeirra lýsa virðingarleysi.
„Það er eins þeir átti sig ekki á alvarleika málsins. Sterkur einstaklingur hefði iðrast, borið ábyrgð á því sem hann hefði sagt. Gengið fram af meiri myndugleika. Þetta halda áfram að vera vonbrigði og mér finnst það eiga að vera skýrt að þeir geta ekki haft dagskrárvaldið með því að koma fram og dreifa ábyrgðinni.“
Lilja sagðist ekki kannast við þessa orðræða í tengslum við sín störf og ef þetta væri venjan væri Alþingi ekki eftirsóknarverður vinnustaður. „Ísland hefur náð góðum árangri í jafnréttismálum, ofboðslega flottum árangri. Það sem þeir eru búnir að gera er að skaða þennan árangur á alþjóðavísu,“ sagði Lilja en Sigmundur Davíð segist oft hafa orðið vitni að verri ummælum í störfum sínum en sett voru fram á Klaustri.
Hún kveðst hafa áttað sig á því hversu mikið málið tók á hana þegar einhver deildi mynd af Bergþóri á Facebook. „Mér brá, það var óþægilegt að sjá andlitið. Ég hef orðið fyrir stórkostlegri árás og sætti mig ekki við það. Ég vil að það sé alveg á hreinu að þetta er óásættanlegt. Við viljum ekki að íslenskt samfélag sé svona.“