Henti Sigmundi ekki að leggjast flatur

Eftirspurn eftir útskýringum Sigmundar Davíðs er lítil.
Eftirspurn eftir útskýringum Sigmundar Davíðs er lítil. mbl.is/​Hari

„Hann slær áfram í og úr, skensar hana fyrir að taka svona til orða og er með ótrúverðugar fullyrðingar, í ljósi þess sem við erum búin að heyra, um að hann tali nú annars fallega um hana,“ segir Andrés Jónsson almannatengill um pistil Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem var ætlað að svara ummælum Lilju Alfreðsdóttur í Kastljósi í gærkvöld.

Andrési telur þessar skýringar Sigmundar ekki duga til þess að milda það rothögg sem hann varð fyrir þegar Lilja kallaði þá alþingismenn sem létu svæsin ummæli um hana falla á Klaustri bar 20. nóvember ofbeldismenn.

„Hann var farinn að ná vopnum sínum, en svo kom Lilja. Hún hafði ekki veitt nein viðtöl fram að þessu og enn grófari bútar úr upptökunni höfðu verið birtir. Hún, sem hafði staðið þeim svo nærri og unnið með þeim í pólitík, veitti þeim ákveðið rothögg með því að taka svona sterkt til orða, sem er algerlega í samræmi við hvernig hún upplifir málið.“

Þarf að sýna að hugur fylgi máli

Sigmund segir Andrés vera með ákveðinn stíl sem stuðningsmönnum hans líkar og telji sókn vera bestu vörnina. „Hann fylgir svolítið sömu línu og hann hefur gert í erfiðum málum áður. Í svona málum er ráðgjöfin oft frekar sú að leggjast bara flatur. Ef það liggur fyrir að þú þarft að játa sök þarf að sýna að hugur fylgi máli.“

Andrés Jónsson, almannatengill.
Andrés Jónsson, almannatengill. mbl.is/Eggert

Hann segir að það séu aukasetningarnar sem oft rati inn í viðbrögð og gefi til kynna að einlægnin sé ekki til staðar. „Sú leið virðist ekki passa honum, að leggjast bara flatur og setja enga fyrirvara við afsökunarbeiðnirnar,“ segir Andrés.

Hann segir að í svo harðri umræðu, líkt og þeirri sem hefur skapast í kring um Klaustursmálið, sé eftirspurnin lítil eftir einhverju sem Sigmundi finnist kannski skipta máli, hann hafi til að mynda bent á að eitthvað hafi verið tekið úr samhengi. Hann upplifi sig að einhverju leyti sem fórnarlamb.

Taktík Sigmundar framlengi umræðuna

„En ef maður er fastur í því að vísa frá sér ábyrgð og tala um að hvaða leyti maður sé sjálfur fórnarlamb gefur það til kynna að að viðkomandi heyri ekki af hverju við erum reið eða af hverju okkur blöskrar. Þegar þú ert að reyna að slá á einhverja umræðu er mikilvægast að koma því vel og á trúverðugan hátt til skila að þú skiljir gagnrýnina og takir mark á henni. Þessi taktík framlengir umræðuna frekar en að eyða henni.“

Andrés segir viðbrögð Sigmundar frekar til þess fallin að fólk hugsi að það verði að halda gagnrýninni áfram, því hún virðist ekki komast til skila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert