Stundin upplýsir í dag hver það var sem tók upp samræður þingmannanna sex sem ræddu saman á barnum Klaustri 20. nóvember.
„Ég er þessi Marvin sem ruggaði bátnum,“ hefur blaðið eftir Báru Halldórsdóttur, sem var stödd fyrir tilviljun barnum þetta kvöld og varð þá vitni að ógeðfelldum samræðum þingmanna og ákvað að taka þær upp.
„Ég varð bara svo sár og trúði varla því sem ég heyrði,“ segir Bára sem er fötluð og samkynhneigð. Hún segist hafa orðið reið að hlusta á valdamikla menn spúa hatri yfir minnihlutahópa á almannavettvangi. Hún telur að það hafi verið rétt að upplýsa almenning um það sem þarna fór fram og kveðst vera stolt af því. Hún átti þó ekki von á því að þetta myndi hafa svona miklar afleiðingar.
Hún upplýsir í viðtalinu að upptökubúnaðurinn hafi verið gamall brotinn farsími af gerðinni Samsung Galaxy A5. Báru var brugðið þegar hún heyrði þingmennina tala með niðrandi hætti um konur sem varð til þess að hún kveikti á upptökunni. Hún segir ennfremur að þingmennirnir hafi talað mjög hátt. „Ég var ekki búin að hafa kveikt á upptöku nema í stutta stund þegar þeir eru farnir að tala um að ríða einhverjum skrokkum og ég veit ekki hvað – og ég ætlaði ekki að trúa þessu. Við vorum stödd í opnu rými, á stað sem er opinn almenningi, og þau töluðu svo hátt að það heyrðist um allt og meira að segja yfir í hitt rýmið á barnum,“ segir Bára m.a. í viðtalinu.