Frumvarp um frekari liðkun á fjármagnshöftum

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að leggja fram frumvarp þar sem lagt er til að aflandskrónueigendur geti losað aflandskrónueignir sínar að fullu með því að skipta þeim í gjaldeyri á álandsmarkaði eða eiga þær sem fullgildar álandskrónur þegar um samfellt eignarhald frá því fyrir fjármagnshöft er að ræða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu.

Verði frumvarpið að lögum munu breytingarnar fela í sér auknar heimildir til úttekta af reikningum sem háðir eru sérstökum takmörkunum. Þessar auknu heimildir eru þrennskonar. Í fyrsta lagi er um að ræða almenna heimild fyrir alla aflandskrónueigendur til að losa aflandskrónueignir til að kaupa erlendan gjaldeyri og flytja á reikning erlendis. Í öðru lagi er heimild fyrir aflandskrónueigendur, sem átt hafa aflandskrónueignir samfellt frá 28. nóvember 2008, til að losa aflandskrónueignir undan takmörkunum laganna. Í þriðja lagi er heimild fyrir einstaklinga til að taka út allt að 100 milljónir af reikningum háðum sérstökum takmörkunum.

Fram kemur í tilkynningunni að breytingarnar sem lagðar séu til taki mið af því að ekki sé grafið undan virkni sérstakrar bindingarskyldu á fjármagnsinnstreymi. Því þurfa þeir aflandskrónueigendur sem ekki hafa átt krónueignir í samfelldu eignarhaldi síðan fyrir tilkomu fjármagnshafta og hyggjast fjárfesta í íslenskum skuldabréfum að fara út í gegnum gjaldeyrismarkað og koma svo inn aftur og sæta þá bindingu. Ella væri verið að mismuna erlendum fjárfestum.

Heildarumfang aflandskrónueigna stendur nú í um 84 milljörðum og hefur minnkað úr 319 milljörðum þegar mest var. Segir í tilkynningunni að efnahagslegar forsendur standi nú til þess að losa fjármagnshöft á aflandskrónueignir.

Þá er í frumvarpinu nú gert ráð fyrir breytingar á heimild Seðlabankans til að grípa til bindingarskyldu á fjármagnsinnstreymi. Sú heimild hefur verið í gildi síðan 2016 og var liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Breytingin sem lögð er til felur í sér aukinn sveigjanleika á formi bindingar reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris en felur ekki í sér breytingu á bindingartíma eða bindingarhlutfalli.

Hingað til hefur þurft að uppfylla bindingarskyldu með því að leggja inn á bundinn reikning hjá innlánsstofnun. Telja stjórnvöld þetta fyrirkomulag meðal annars hafa gert annars áhugasömum fjárfestum erfitt fyrir að fjárfesta hér á landi, þar sem einhverjum fjárfestum er óheimilt að fjárfesta ef ekki er hægt að losa fjárfestinguna hvenær sem er.

Til þess að bregðast við þessu er lagt til að mögulegt verði að uppfylla bindingarskyldu með endurhverfum viðskiptum með innstæðubréf Seðlabankans. Enn fremur felur hið nýja fyrirkomulag í sér að fjárfestir getur rofið bindingu á bindingartíma með uppgjöri við fjármálafyrirtæki. Áfram verður hægt að uppfylla bindingarskyldu með innleggi á bundinn reikning hjá innlánsstofnun með óbreyttum hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert