Ísland tekur þátt í alþjóðasamþykkt um farendur

Talið er að í heiminum séu 258 milljónir farenda og …
Talið er að í heiminum séu 258 milljónir farenda og hafa þeir aldrei verið fleiri. AFP

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í dag að Ísland tæki þátt í afgreiðslu nýrrar samþykktar Sameinuðu þjóðanna um örugga, skipulagða og reglubundna fólksflutninga. Gerðir verða ákveðnir fyrirvarar við samþykktina þar sem túlkun Íslands verður áréttuð, í samræmi við það sem helstu grannríki gera.
 
Samþykktin um örugga, skipulagða og reglubundna fólksflutninga (e. Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration) er ný alþjóðasamþykkt Sameinuðu þjóðanna vegna vaxandi fólksflutninga í heiminum og fjallar hún um málefni svonefndra farenda (e. migrants). Hún verður samþykkt á sérstakri ríkjaráðstefnu í Marrakesh í Marokkó í byrjun næstu viku og svo staðfest af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í framhaldi af því, að því er utanríkisráðuneytið greinir frá.

Talið er að í heiminum séu 258 milljónir farenda og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Þar segir jafnframt, að markmiðið með samþykktinni sé að bæta viðbrögð alþjóðasamfélagsins við vaxandi fólksflutningum. Samþykktin sé ekki lagalega bindandi, en skapi samvinnugrundvöll ríkja heimsins um skipulögð og samhæfð viðbrögð. Hún taki mið af fullveldi ríkja og undirstriki rétt hvers ríkis til að ráða sjálft innflytjendalöggjöf og stefnu í málefnum innflytjenda. 

„Samþykktin byggir á núgildandi mannréttindasamningum en um er að ræða samstöðuyfirlýsingu aðildarríkja og hvatningu til þeirra um mannsæmandi meðferð á farendum og málefnum þeirra, sem víða um heim hefur verið í miklum lamasessi. Samþykktin kveður á um 23 markmið sem ríkin sammælast um að vinna að. Þau ná til ólíkra þátta á borð við samræmda tölfræði, upplýsingagjöf til innflytjenda, útgáfu skilríkja, endurviðtöku eigin borgara, mannsæmandi aðstæður til vinnu, aðgerðir gegn mansali og réttindi til grunnþjónustu svo fátt eitt sé nefnt. 

Efni samþykktarinnar er innan þess lagaramma og framkvæmdar sem nú þegar er í gildi á Íslandi og kallar lokaútgáfa hennar ekki á lagabreytingar. Þá er þátttaka í þessari samþykkt í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar um stuðning við mannréttindi og núgildandi framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda,“ segir ráðuneytið einnig.

„Ísland mun því styðja málið en fara um leið að dæmi Danmerkur, Noregs, Bretlands og fleiri ríkja og árétta túlkun Íslands á samþykktinni sérstaklega. Ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins sækir fundinn í Marrakesh fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og tekur þátt í að samþykkja samþykktina, um leið og hann áréttar skilning Íslands á henni.

Talið er að í heiminum séu 258 milljónir farenda og hafa þeir aldrei verið fleiri. Árið 2016 samþykkti sérstakur leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna svokallaða New York-yfirlýsingu um málefni flóttafólks og farenda. Samþykktin er unnin á grundvelli þessarar yfirlýsingar. Formlegar samningaviðræður um samþykktirnar tvær hófust í febrúar 2018 og tók Ísland þátt í þeim. Málið var kynnt í ríkisstjórn í maí síðastliðnum og utanríkismálanefnd í júnílok,“ segir ráðuneytið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert