Virða ákvörðun Ágústar Ólafs

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

„Við erum auðvitað mjög leið yfir því að þetta skyldi hafa gerst og við tök­um því mjög al­var­lega að Ágúst hafi hlotið áminn­ingu,“ seg­ir Logi Már Ein­ars­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, í sam­tali við mbl.is vegna áminn­ing­ar sem trúnaðar­nefnd flokks­ins veitti Ágústi Ólafi Ágústs­syni, þing­manni hans, í síðustu viku vegna ósæmi­legr­ar fram­komu Ágústs gagn­vart konu í miðbæ Reykja­vík­ur í byrj­un síðasta sum­ars.

Spurður hvort hann telji ástæða sé til þess að vísa máli Ágúst­ar til siðanefnd­ar Alþing­is, líkt og þing­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar kölluðu eft­ir að yrði gert í Klaust­urs­mál­inu, seg­ir Logi að málið hafa verið af­greitt af fag­legri siðanefnd inn­an flokks­ins. Spurður hvort hann telji ástæðu til þess að Ágúst segi af sér þing­mennsku seg­ist virða ákvörðun Ágúst­ar um að óska eft­ir tíma­bundnu leyfi frá þing­störf­um og leita sér aðstoðar sér­fræðinga.

Þurfi ekki að víkja úr trúnaðar­stöðum

Ágúst greindi frá mál­inu á Face­book-síðu sinni í kvöld. Þar kom fram að hann hafi hitt konu á bar í miðbæn­um sem hann þekkti lít­il­lega og spjallað við hana. Þau hafi síðan farið á vinnustað kon­unn­ar og þar hafi hann nálg­ast hana tví­veg­is óum­beðinn og spurt hvort þau ættu að kyss­ast. Hún hafi neitað því og gefið hon­um skýrt til kynna að það væri ekki í boði. Hann hafi brugðist við skýrri höfn­un kon­unn­ar með því að láta mjög sær­andi orð falla um hana. Kon­an hafði síðan haft sam­band við Ágúst og greindi hon­um frá því að fram­ganga hans hefði valdið henni van­líðan og sært hana. Ekki síst vegna stöðu hans sem þing­manns. Ágúst seg­ist hafa beðið hana af­sök­un­ar. Hún hefði í kjöl­farið vísað mál­inu til trúnaðar­nefnd­ar Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Logi Már seg­ir Sam­fylk­ing­una hafa komið sér upp skýr­um verklags­regl­um þegar mál sem þetta komi upp þar sem fólk geti beint kvört­un­um í. Fag­fólk skipi trúnaðar­nefnd flokks­ins. Málið hafi farið í það ferli. Niðurstaða þeirra sé að ekki sé ástæða til þess að Ágúst víki úr trúnaðar­stöðum flokks­ins en að hann hafi brotið siðaregl­ur og því veitt hon­um áminn­ingu. þegar niðurstaðan hafi legið fyr­ir fyr­ir viku hafi hann kallað sam­an þing­flokk­inn og greint frá því að hann vildi leita sér aðstoðar og fara í launa­laust leyfi.

„Ég svara því bara þannig

„Við auðvitað virðum þá ákvörðun hans og telj­um mik­il­vægt að hann taki á þessu og leiti til sér­fræðinga,“ seg­ir Logi enn­frem­ur. Spurður hvort hann telji ástæðu til að siðanefnd Alþing­is taki mál Ágúst­ar til skoðunar, líkt og þing­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar töldu ástæðu til vegna Klaust­urs­máls­ins svo­kallaðs, seg­ir Logi:

„Það get­ur vel verið að ein­hver óski þess. Við erum búin að fara með þetta í gegn­um okk­ar siðanefnd, sem er vel skipuð sér­fróðu fólki um ýmis mál, og þau kváðu upp sinn úr­sk­urð og Ágúst geng­ur lengra en hún legg­ur til. Ég svara því bara þannig.“ Spurður hvort ástæða sé til að Ágúst segi af sér þing­mennsku vegna máls­ins seg­ir Logi að hann virði ákvörðun Ágústs. Hann hafi upp­lýst um áminn­ing­una og óskað eft­ir að taka sér leyfi frá þing­störf­um tíma­bundið og leita sér aðstoðar. Tím­inn verði síðan að leiða annað í ljós.

„Auðvitað verður hann og ég og við öll í okk­ar verk­um að líta í okk­ar eig­in barm. En ég virði þessa ákvörðun hans í ljósi niður­stöðu úr­sk­urðar­nefnd­ar­inn­ar og finnst það býsna ær­legt af hon­um að stíga skref­inu lengra,“ seg­ir Logi. Spurður hvort hann telji viðbrögð Ágúst­ar sem sagt vera full­nægj­andi í ljósi máls­ins seg­ir hann það verði að koma í ljós. Spurður hvað hann eigi við með því seg­ir hann: „Staðan er svona núna.“

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Ágúst Ólaf­ur Ágústs­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert