Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, fékk bréf frá Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, í gær þar sem hann óskar leyfis frá störfum. Segir Steingrímur að það leyfi verði veitt. Spurður hvort að máli hans verði vísað til siðanefndar þingsins, líkt og Klaustursmálinu, bendir hann á að forsætisnefnd hafi hvorki frumkvæðisrétt né frumkvæðisskyldu. Nefndin taki fyrir erindi sem henni berast. Slíkt erindi geti borist jafnt frá borgurum sem þingmönnum.
Ágúst Ólafur greindi frá því á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi að trúnaðarráð flokksins hefði í síðustu viku veitt honum áminningu vegna „framkomu“ hans í garð konu sem hann lýsir sem „ámælisverðri“. Samkvæmt frásögn Ágústs nálgaðist hann konuna „tvívegis óumbeðinn“ og spurði hvort þau ættu að kyssast. Segir hann konuna hafa gefið sér skýrt til kynna að það væri ekki í boði og við þá höfnun hafi hann látið mjög særandi orð falla um hana, eins og hann lýsir sjálfur.
Í Klaustursmálinu svokallaða náðust upptökur af þingmönnum að láta særandi orð falla um fólk sem ekki var viðstatt. Því máli hefur verið vísað til siðanefndar þingsins eftir að hópur þingmanna fór þess á leit við forsætisnefnd. Í þeim hópi var Ágúst Ólafur Ágústsson.
Ágúst skrifar í færslu sinni, þar sem hann lýsir málinu frá sínu sjónarhorni, að í kjölfar áminningar trúnaðarnefndarinnar hafi hann ákveðið að ganga lengra en nefndin lagði til og óska eftir tveggja mánaða launalausu leyfi frá þingstörfum. Hefur forseti veitt honum slíkt leyfi af persónulegum ástæðum.