Arkitektar sem þátt tóku í framkvæmdasamkeppni um nýja viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið í Lækjargötu gagnrýna harkalega vinnubrögð dómnefndarinnar sem skar úr um hvaða tillaga af þeim 30 sem bárust myndi bera sigur úr býtum.
Benda þeir á að dómnefndin hafi hinn 30. ágúst síðastliðinn, 20 virkum dögum áður en tillögur áttu að berast í síðasta lagi, opnað á þann möguleika að þátttakendur gætu hagað rýmisskipan hússins eftir eigin höfði í stað þess að fylgja svokallaðri rýmisáætlun sem lögð hafði verið til grundvallar í upphaflegri mörkun verkefnisins. Fyrr í ferlinu hafði nefndin fortakslaust lýst því yfir í viðbrögðum við fyrirspurn að ætlast væri til þess að keppendur fylgdu húsrýmisáætluninni eins og hún var lögð fyrir.
Arkitektar sem rætt er við í Morgunblaðinu í dag segja að þær kröfur sem gerðar voru til innanrýmis byggingarinnar hafi verið í miklu ósamræmi við þær stærðartakmarkanir sem húsinu voru settar. Að lokum varð sú tillaga hlutskörpust þar sem höfundum tókst að hafa bygginguna á tveimur hæðum en ekki þremur. Allar hinar tillögurnar, að tveimur undanskildum, voru um húsnæði á þremur hæðum eða meira. Fulltrúar í dómnefndinni vísa gagnrýninni á bug og segja að nefndin hafi ekki breytt forsendum keppninnar í ágúst síðastliðnum, hún hafi aðeins áréttað að keppendum væri frjálst að haga útfærslu húsnæðisins með þeim hætti sem þeim þætti best henta, þ.m.t. „þeim niðurskurði og/eða samnýtingu rýma“ sem hugmynd þeirra byggðist á.