„Alls engin“ viðbrögð við neyðarkalli

Á flugi í átt að flugvellinum að Gjögri í Árneshreppi.
Á flugi í átt að flugvellinum að Gjögri í Árneshreppi. mbl.is/Árni Sæberg

Oddviti Árneshrepps hefur sent fjölmörg bréf til ráðamanna í gegnum tíðina með áskorun um samgöngubætur í þessu minnsta sveitarfélagi landsins. Fyrir slíkum bótum hafa oddvitar sem á undan gengu einnig barist. Yfirleitt hafa viðbrögðin verið lítil sem engin og aldrei jákvæð.

Þannig er því einnig farið með nýjasta bréf oddvitans sem hann sendi þingmönnum Norðvesturkjördæmis og samgöngunefnd Alþingis. Í því lýsir hann örvæntingu margra sveitunga sinna og segir að ef ekkert verði að gert á næstu misserum gæti það hreinlega orðið of seint. Byggðin gæti lagst af. „Það eina sem getur veitt okkur vonir um bjartari og betri framtíð er að samgöngur muni batna á allra næstu árum,“ skrifar oddvitinn Eva Sigurbjörnsdóttir. Hún segist í samtali við mbl.is vilja trúa því og treysta að þeir sem fengu bréfið séu enn að reyna að finna leiðir til að gera eitthvað í málunum og að það skýri þögnina. Annað bréf hafði hún sent í haust til sömu aðila með ósk um aukinn snjómokstur. Við því hefur hún heldur engin viðbrögð fengið, „alls engin“.

Raunverulegt hætta á ferðum

Eva segir raunverulega hættu á því að sveitarfélagið fari í eyði verði ekki af úrbótum í samgöngumálum. Á síðustu mánuðum hafi sex manns flutt úr sveitarfélaginu, m.a. þeir sem ráku búðina. Í vetur sé því hvorki rekin búð né skóli því eina barnið í Árneshreppi stundar nú nám á Drangsnesi. Aðeins sautján manns hafa nú vetursetu í sveitarfélaginu og hafa aldrei verið jafnfáir.

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps.
Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps. mbl.is/Golli

Íbúar Árneshrepps hafa árum og áratugum saman krafist vegabóta yfir Veiðileysuháls, einn mesta farartálmann að vetrarlagi í hreppnum. Nýr vegur var kominn á samgönguáætlun fyrir hrun en af gerð hans varð ekki á þeim tíma. Síðan þá hefur framkvæmdunum ítrekað verið slegið á frest. Og þannig er það enn, engra úrbóta er að vænta á næstu árum.

Að auki er vegurinn um hreppinn aðeins mokaður einu sinni í viku fram að áramótum. Eftir það er hann ekkert mokaður til 20. mars ár hvert, þrátt fyrir að það væri vel gerlegt. Ráðamenn hafa sagt að hægt sé að moka en aðeins ef sveitarfélagið greiði helming kostnaðarins. Það er of stór biti fyrir hið fámenna sveitarfélag á Ströndum.

Flugið ekki raunverulegur valkostur

Á hinu moksturslausa tímabili er flogið milli Reykjavíkur og Gjögurs tvisvar í viku og á það benda ráðamenn gjarnan þegar farið er fram á tíðari mokstur. En fargjöldin eru dýr. Kostnaðurinn er á bilinu 30-50 þúsund báðar leiðir. Því er það að mati Evu ekki raunverulegur og ásættanlegur valkostur fyrir alla. „Ef hjón þurfa að fljúga suður er kostnaðurinn jafnvel um 80 þúsund,“ bendir hún á.

Þar sem búðin sé lokuð þurfi íbúarnir auk þess að aka til nágrannasveitarfélags til að kaupa í matinn eða fá matinn sendan með flugi. Hver tuttugu kíló sem flutt eru kosta hins vegar að sögn Evu yfir 5.000 krónur. „Þetta kostar allt of mikið að mati þeirra sem þurfa að nýta sér þetta,“ segir Eva. Því hafi matarreikningurinn hækkað hjá fólki og eigi enn eftir að gera það eftir áramót þegar vegurinn er ekki mokaður mánuðum saman. „Ástandið er því miklu verra hjá okkur núna en í fyrra þegar við höfðum búðina.“

Vegagerðin mokar ekki veginn um Árneshrepp á margra vikna tímabili …
Vegagerðin mokar ekki veginn um Árneshrepp á margra vikna tímabili frá áramótum og til síðari hluta marsmánaðar. Ljósmynd/Vegagerðin

Eva segist allt annað en sátt með viðbrögð þingmanna Norðvesturkjördæmis í gegnum tíðina við kröfum um úrbætur í samgöngumálum í Árneshreppi. Hún segir þau þó að einhverju leyti skiljanleg, þeir hafi í óteljandi horn að líta. Vegasamgöngur víða um kjördæmið eru í lamasessi og fjölmörg verkefni aðkallandi. „En við sitjum alltaf á hakanum. Það er bara þannig.“

Vonar að virkjun fylgi vegbætur

Eva er raunverulega farin að óttast að byggð leggist af í Árneshreppi að vetrarlagi. „Já, í hreinni alvöru óttast ég það.“ Hún bindur hins vegar enn vonir við að verði af byggingu Hvalárvirkjunar muni hlutirnir horfa til betri vegar – í bókstaflegri merkingu – sum sé að virkjanaframkvæmdunum muni fylgja vegbætur í sveitarfélaginu. Verði af virkjun munu framkvæmdir þó ekki hefjast fyrr en í fyrsta lagið árið 2020 og miðað við samgönguáætlun stendur ekki til að leggja nýjan veg um Veiðileysuhálsinn torfæra fyrr en í lok fyrirhugaðs framkvæmdatíma.

Framkvæmdaaðilinn, Vesturverk, lýsti nýverið í bréfi til hreppsnefndarinnar áhyggjum af ástandi vega og tímasetningu nýframkvæmda Vegagerðarinnar eins og þær birtast í samgönguáætlun. Þó að til standi að beina flutningum sem tengjast fyrirhugaðri virkjun eins mikið og mögulegt er sjóleiðina verði flutningar á landi alltaf einhverjir. „Ljóst má því vera að vegurinn í óbreyttu ástandi mun skemmast illa af umferðinni sem framkvæmdunum fylgir,“ stóð í bréfi Vesturverks.

Reykjarfjarðarkamb, sem ævinlega er kallaður Kamburinn, ber tignarlega við himin …
Reykjarfjarðarkamb, sem ævinlega er kallaður Kamburinn, ber tignarlega við himin við byggðina á Gjögri í Árneshreppi. mbl.is/Sunna

Ætlar að skrifa enn eitt bréfið

Oddvitinn hefur einnig sent þetta bréf Vesturverks til þingmanna og samgöngunefndar Alþingis. Og bíður enn viðbragða við því.

„Nú er ég að hugsa um að setjast við skriftir eina ferðina enn,“ segir Eva sem vill ekki missa vonina og æskir þess að viðbrögðin verði jákvæð nú, enda framtíð byggðar heils sveitarfélags undir. „Ég ætla að skrifa bréf til forsætisráðherra, fjármálaráðherra og samgönguráðherra og benda þeim á að sennilega væri sú lausn best fyrir okkur að að svo stöddu að við fengjum mokstur í allan vetur tvisvar í viku þegar veður leyfi. Já, ég held áfram að berjast. Það er kominn tími á það að ráðamenn reddi einhverju fyrir okkur, þó að það væri ekki nema þessi mokstur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert