Meirihluta landsmanna, eða 52%, þykir mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili. Hlutfall þeirra sem kváðu nýja stjórnarskrá mikilvæga lækkaði um fjögur prósentustig frá könnun MMR sem framkvæmd var í september 2017.
34% landsmanna þykir mjög mikilvægt að Íslendingar fengju nýja stjórnarskrá á kjörtímabilinu, samkvæmt niðurstöðum könnunar MMR sem framkvæmd var í nóvember. 964 svöruðu svöruðu könnuninni.
Konur reyndust líklegri til að segja endurnýjun stjórnarskrár mikilvæga heldur en karlar, eða 56% á móti 49%. Hlutfall þeirra sem kváðu breytingar á stjórnarskrá mikilvægar fór vaxandi með auknum aldri, en 41% 68 ára og eldri taldi breytingarnar mikilvægar á móti 28% í yngsta aldurshópnum, 18 til 29 ára.
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu (54%) voru líklegri til að telja stjórnarskrárbreytingar mikilvægar en íbúar landsbyggðarinnar (48%).
Þá reyndist stuðningsfólk Pírata líklegast til að segja nýja stjórnarskrá mikilvæga, eða 90%. Þar á eftir kom stuðningsfólk Flokks fólksins (85%) og þar á eftir stuðningsfólk Samfylkingarinnar (83%). Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Framsóknarflokksins reyndist líklegast til að segja stjórnarskrárbreytingar lítilvægar.