Bára fer fyrir héraðsdóm á mánudag

Bára Halldórsdóttir tók upp samtöl sex þingmanna á Klaustri bar.
Bára Halldórsdóttir tók upp samtöl sex þingmanna á Klaustri bar. Ljósmynd/Aðsend

Bára Halldórsdóttir hefur verið boðuð til þinghalds í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna beiðni frá Reimari Péturssyni lögmanni fyrir hönd fjögurra einstaklinga um vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna. Þetta staðfestir Bára í samtali við mbl.is, en fyrst var greint frá á Stundinni.

Bára fékk bréf þess efnis í dag og á að mæta í héraðsdóm næstkomandi mánudag. Undir bréfið ritar Lárentsínus Kristjánsson, dómari í við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Bára var stödd á Klaustri bar 20. nóvember síðastliðinn þegar hún varð nokkurra þingmanna vör sem fóru illum orðum um konur, fatlaða og samkynhneigða. Hún tók samtöl þingmannanna upp og sendi fjölmiðlum nokkru síðar.

Umræddir þingmenn voru tveir þingmenn Flokks fólksins, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, og fjórir þingmenn Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir. Komið hefur fram að fjórmenningarnir í Miðflokknum hafi ráðið sér lögmann vegna málsins.

Bréfið sem um ræðir.
Bréfið sem um ræðir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka