Gallabuxur fyrir neðan virðingu Alþingis

Ásmundur Friðriksson vill ekki tilslökun í hefðum þingsins.
Ásmundur Friðriksson vill ekki tilslökun í hefðum þingsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti á Alþingi í dag áhyggjum af tilslökun hefða og að ekki nægileg virðing fyrir þinginu væri sýnd með því að brjóta gegn reglum þingsins um klæðaburð.

Í ræðu sinni um störf þingsins vísaði Ásmundur til þess að löng hefð hefur verið fyrir því að þingmenn séu snyrtilegir á fundum nefnda þingsins og í þingsal. Þá benti hann á að almenna reglan hafi verið að karlmenn séu í jakka, en fjölbreyttari val hefur verið varðandi klæðaburð kvenna.

Sagðist Ásmundur telja að þessar reglur hefðu verið síbrotnar og að það myndi vart standast reglur þingsins að íklæðast gallabuxum í þingsal.

Árið 2013 var þingmaður Sjálfstæðisflokksins áminntur fyrir að vera í gallabuxum í þingsal.

„Ég legg það til, svo við förum ekki öll í jólaköttinn, að við tökum okkur taki og berum virðingu fyrir klæðnaði hér í þingsal. Að við komum þannig hingað inn að við berum virðingu fyrir þeirri sögu sem tilheyrir þessu húsi og því starfi sem við erum að vinna og sýnum það í framkomu okkar og klæðnaði að við séum á háttvirtu Alþingi,“ sagði þingmaðurinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka