Sanna gefur launin sín Maístjörnunni

Sanna Magdalena segir nauðsynlegt að leggja hinum verr settu lið …
Sanna Magdalena segir nauðsynlegt að leggja hinum verr settu lið í að skipuleggja baráttu sína. Hún gefur launin sín. mbl.is/Eggert

Af launum Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins í Reykjavík, koma til með að renna 100.000 krónur á mánuði í nýstofnaðan styrktarsjóð Sósíalistaflokksins, Maístjörnuna. Auk þess fjár renna framlög borgarinnar til flokksins beint í sjóðinn en þau nema til þessa 900.000 krónum en slíkra greiðslna er að vænta tvisvar á ári til flokksins.

Sanna fær 908 þúsund krónur í laun á mánuði fyrir störf sín sem borgarfulltrúi og með þessari tilhögun lækka þau niður í um 750 þúsund fyrir skatt, eða 2,5 föld lágmarkslaun. „Mitt starf er ekkert mikilvægara en starf þeirra sem vinna á leikskóla,“ segir Sanna í samtali við mbl.is. Hún segir ekki útilokað að hún lækki laun sín meira þegar fram líða stundir.

„Við erum öll að vinna á sama vinnustað, hjá Reykjavíkurborg,“ segir hún. Þá nefnir hún að lágmarkslaun verði að hækka, að hún sjái ekki að þau geti verið svona lág. Þau eru 300.000 krónur fyrir skatt hjá borginni, skv. Sönnu.

Til mótvægis við kúgunartækin

Sósíalistaflokkurinn sendi út tilkynningu í dag um hinn nýstofnaða styrktarsjóð sem ber nafnið Maístjarnan og vísar þannig í kvæði Ólafs Ljósvíkings. Sjóðnum er ætlað að vera fyrir þá verr settu, sem vilja skipuleggja baráttu sína fyrir betri lífskjörum, en vantar styrka umgjörð til þess. Þannig getur fólk sótt um styrk til þess að mæta kostnaði við fundi ýmiss konar, og eins salarkynni.

„Þetta er mikilvægt skref í að aðstoða fólk í að skipuleggja sína baráttu. Það er mikilvægt að þeir verr settu, þeir sem verða verst fyrir kúgunartækjum kapítalismans, geti barist fyrir réttindum sínum,“ segir Sanna. Hún sér fram á að sjóðurinn geti verið liður í að virkja almenning í baráttu sinni. Þannig kunni sjóðurinn að gera fólkinu úr „hinni Reykjavík“, þeirri sem Sanna segir ekki fá mikið pláss í umræðunni, kleift að ná vopnum sínum.

Flokkurinn reiknar með því að á kjörtímabilinu renni um sjö milljónir króna úr borgarsjóði til Maístjörnunnar, í gegnum Sósíalistaflokkinn. Flokkurinn reiknar einnig með að framlag Sönnu til verkefnisins verði á kjörtímabilinu yfir fjórum milljónum króna.

Tekið verður við frjálsum framlögum og það er einnig hægt að fara í áskrift. Á vefsíðu Sósíalistaflokksins má leggja sjóðnum lið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert