Ísland var eitt þeirra um 160 ríkja sem tóku þátt í afgreiðslu samþykktar Sameinuðu þjóðanna um örugga, skipulagða og reglubundna fólksflutninga (e. Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration) á sérstakri ríkjaráðstefnu í Marakes í Marokkó.
„Markmiðið með samþykktinni er að bæta viðbrögð alþjóðasamfélagsins við vaxandi fólksflutningum,“ að því er segir á vef Stjórnarráðsins. Þá kemur fram að um er að ræða farendur (e. migrants) og er talið að um 258 milljónir farenda séu í heiminum.
Samþykktin er sögð skapa grundvöll fyrir samvinnu ríkja í millum og fyrir samhæfingu aðgerða í málaflokknum, þá felur hún hins vegar ekki í sér lagalegar skuldbindingar og tekur mið af fullveldisrétti ríkja.
Á vef Stjórnarráðsins er áréttað að undirstrikaður er réttur hvers ríkis til að ráða sjálft innflytjendalöggjöf og stefnu í málefnum innflytjenda. „Ísland fer að dæmi Danmerkur, Noregs, Bretlands og fleiri ríkja og áréttaði túlkun Íslands á samþykktinni sérstaklega.“
Fyrir hönd íslenskra stjórnvalda sótti Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, fundinn og skilaði hún því til fundarins í ræðu sinni að íslensk yfirvöld fagna að í samþykktinni er lögð áhersla á mannréttindi, kynjasjónarmið, réttindi barna og aðgerðir gegn mansali.
„Samþykktin byggir á núgildandi mannréttindasamningum og um er að ræða samstöðuyfirlýsingu aðildarríkja og hvatningu til þeirra um mannsæmandi meðferð á farendum og málefnum þeirra, sem víða um heim hefur verið í miklum lamasessi,“ segir á vef stjórnarráðsins.
Málið var kynnt ríkisstjórn í maí og utanríkismálanefnd Alþingis í júlí.