„Ég kem ekki í þennan sal á fótboltaskóm til að sparka í einn eða neinn. Ég er heldur ekki á inniskóm til að slappa af,“ sagði Ellert B. Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi þar sem hann beindi spurningu til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um stöðu aldraðra.
Hann vísaði í ræðu sem hann hélt á Alþingi fyrr í vikunni þar sem hann minnti á að eldri borgarar sem hafa ekkert annað á milli handanna fá í ellilífeyri frá almannatryggingum greiddar 239.500 krónur á mánuði. Skattur er svo tekinn af þeirri greiðslu. Hann sagði ellilífeyri vera langt fyrir neðan öll framfærsluviðmið og að hann hafi dregist aftur úr á undanförnum árum.
„Í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir hækkun upp á 3,6% sem er náttúrulega ekkert annað en hungurlús,“ sagði hann og nefndi að starfshópur hafi verið skipaður í vor til að fara yfir stöðuna en nú hálfu ári seinna séu engar tillögur komnar.
„Ég hef fengið tækifæri til að setjast hér inn á Alþingi 79 ára gamall. Mitt eina verkefni er að tala hér fyrir hönd eldri borgara sem verst standa og minnst eiga,“ bætti Ellert við og spurði Bjarna hvort eldri borgarar væru að missa af lestinni og hvort til standi að sniðganga eldri borgara. Benti hann á að hvergi sé minnst á búbót fyrir eldri borgara í frumvarpi til fjáraukalaga.
Bjarni sagði vandann snúast um fólk sem er komið á lífeyrisaldur og náði ekki að nýta starfsævina til að tryggja sér góð eftirlaun. „Við höfum gert mikið átak í að rétta stöðu þessa hóps,“ sagði hann og vildi ekki meina að þessi hópur hafi setið eftir. Hann sagði kaupmátt ellilífeyrisbóta hafa stórvaxið undanfarin ár en að stjórnvöld vilji samt gera betur.
Ellert steig þá í pontu og sagði þetta fólk komið á þann aldur að það geti ekki beðið lengi. Það þurfi að hjálpa þeim að njóta lífsgæða áður en yfir lýkur. Svaraði Bjarni þannig að hann gæti ekki annað en tekið undir „þetta göfuga markmið“.