Sigurður Þór Ágústsson, skólastjóri Grunnskóla Húnaþings vestra, lagði fram erindi, að beiðni foreldra, á fundi byggðaráðs Húnaþings um greiðslu vegna heimakennslu barna.
Um er að ræða beiðni frá foreldrum barna á Þorgrímsstöðum og í Saurbæ á Vatnsnesi en ástæða beiðninnar er slæmt ástand vegarins um Vatnsnes, að því er fram kemur íæ umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
„Þetta kemur náttúrlega til af því að ástandið á Vatnsnesveginum hefur verið mjög erfitt undanfarið. Þetta er sú leið sem foreldrar hafa núna óskað eftir til að reyna að minnka álagið á börnin,“ segir Sigurður. „Ferðatími skólabílsins hefur lengst mjög mikið út af veginum því það er í raun og veru ekki hægt að fara hraðar en á 20 til 30 km hraða. Þetta er frekar löng leið og það er hávaði og ónot og ógleði sem fylgir þessu. Þessi beiðni kemur frá foreldrum og maður hefur skilning á henni.“