Veggjöld samþykkt eftir áramót

Jón Gunnarsson og Kristín Soffía Jónsdóttir, gestir í Silfrinu í …
Jón Gunnarsson og Kristín Soffía Jónsdóttir, gestir í Silfrinu í morgun. Skjáskot/RÚV

Jón Gunnarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og fyrrverandi samgönguráðherra, segir að samgönguáætlun verði afgreidd snemma á nýju ári. Full samstaða er meðal ríkisstjórnarflokkanna um afgreiðslu samgönguáætlunar en samkomulag var gert milli ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar um að samgönguáætlun verði í forgangi þegar þing kemur saman að nýju eftir jólafrí.

Jón var einn gesta Fanneyjar Birnu Sveinbjörnsdóttur í Silfrinu á RÚV í morgun. Sagði hann þar að umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis taki málið fyrir um miðjan janúar þannig að hægt verði að afgreiða samgönguáætlunina mánaðamótin janúar-febrúar.

Að sögn Jóns er með upptöku veggjalda verið að stíga stórt skref inn í framtíðina. Fyrirkomulagið hraði mjög vegaframkvæmdum sem greiðir leið fólks og fækkar umferðarslysum og þeim mikla þunga sem hvílir á samfélaginu vegna þeirra.

Björn Leví Gunnarsson og Steinunn Þóra Árnadóttir.
Björn Leví Gunnarsson og Steinunn Þóra Árnadóttir. Skjáskot/RÚV

„1996, þegar framkvæmdir hófust við Hvalfjarðargöng voru 70 prósent landsmanna á móti göngunum og meirihluti ætlaði ekki að keyra þau. Það er ekki óeðlilegt að svona hugmyndir veki umtal,“ segir Jón en bætti við að gjaldtakan snerist einna helst um hagsmuni fólks sem færi reglulega um þá vegi sem um ræðir. Hann sagði gjaldtökuna þó þurfa að vera hóflega þannig hún sé ekki of íþyngjandi fyrir heimilisbókhaldið. Sé gjöldum stillt í hóf gæti falist nokkur sparnaður í gjaldtöku þegar litið er til styttri ferðatíma og bensínsparnaðar.

Nokkuð breið samstaða var um veggjöld hjá gestum þáttarins, hjá Kristínu Soffíu Jónsdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata, og Steinunni Þóru Árnadóttur, þingmanni Vinstri grænna.

Kristín sagðist hlynnt veggjöldum og sagði mikilvægt að hraða uppbyggingu almenningssamgangna enda hafi engin borg byggt sig frá umferðarteppu. „Það er ekki ákjósanlegasti kosturinn að 90 prósent kjósi að keyra sjálfir á bíl,“ sagði Kristín.

Kristín hafði þó helst áhyggjur af því að veggjöld höfuðborgarbúa yrðu notuð til þess að fjármagna vegaframkvæmdir á landsbyggðinni, og nefndi máli sínu til stuðnings gistináttagjald sem renni til ríkisins en ekki sveitarfélaga. 

Umferðarmálin voru rædd í Silfrinu á RÚV í morgun.
Umferðarmálin voru rædd í Silfrinu á RÚV í morgun. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Steinunn tók undir með bæði Jóni og Kristínu; sagði brýnt að hraða uppbyggingu vegakerfisins til að tryggja umferðaröryggi en að einnig þyrfti að taka til hendinni við eflingu almenningssamgangna. Hún sagði gjaldtöku samræmast stefnu Íslands í loftlagsmálum enda hafi vegakerfið verið fjármagnað með bensíngjöldum, orkugjafa sem stjórnvöld vilja sjá á útleið.

Björn Leví sagði að innan Pírata væri hvorki sérstök mótstaða eða stuðningur við veggjöld. Flokkurinn hafi hins vegar bent á að ferlið við að koma veggjöldum inn í samgönguáætlun með nefndaráliti meirihlutans rétt fyrir þinglok hafi verið illa undirbúið enda um stóra ákvörðun að ræða á stuttum tíma. Vildi flokkurinn því að afgreiðslu samgönguáætlunar yrði frestað og málið nægilega vel unnið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert